Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Brugga bjór til að fagna NATO-umsókninni

17.05.2022 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Olaf Brewing
Finnska brugghúsið Olaf Brewing í bænum Savonlinna hefur sett á markað bjórinn OTAN til að fagna umsókn landsins um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Heiti bjórsins er vísun í franska skammstöfun á nafni bandalagsins.

Petteri Vänttinen, framkvæmdastjóri brugghússins, sagði við finnska ríkisútvarpið í gær að fyrirtækið hafi ekki vanið sig á að taka afstöðu í stjórnmálum. 

„Nú er meirihluti Finna aftur á móti hlynntur aðild að NATO og þess vegna ákváðum við að stíga þetta skref. Það krafðist svo sem einskis hugrekkis, við gerðum þetta bara,“ sagði Vänttinen.

Sagði hann enn fremur að fyrirtækið hafi verið með þetta til skoðunar um nokkurt skeið. Það hefði ekki sett bjórinn á markað nema það teldi aðild Finnum fyrir bestu.

Heimabær brugghússins, Savonlinna, varð fyrir loftárásum rússneskra herflugvéla í seinni heimsstyrjöldinni og hafði staðsetningin því nokkur áhrif á ákvarðanatöku stjórnenda brugghússins.

„Við vonum að eftir þessa aðildarumsókn endurtaki þetta sig aldrei í Savonlinna né nokkurs staðar í Finnlandi,“ sagði Vänttinen.

Þórgnýr Einar Albertsson