Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Pólitískir refir sitja um Framsókn í Hafnarfirði

16.05.2022 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
„Ég átti óformleg samtöl við bæði Rósu [Guðbjartsdóttur] og Guðmund Árna [Stefánsson] en engar formlegar viðræður eru hafnar,“ segir Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði. Þar eins og víða annars staðar höfuðborgarsvæðinu er Framsókn í lykilhlutverki við myndun nýs meirihluta.

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hélt velli  í sveitarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði á laugardag.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum manni en Framsókn bætti við sig einum. Samfylkingin undir forystu Guðmundar Árna Stefánsson, fyrrverandi bæjarstjóra og ráðherra,  vann góðan sigur og bætti við sig tveimur, er með fjóra bæjarfulltrúa.

Guðmundur Árni greindi frá því á Facebook í gærkvöld að hann hefði sett sig í samband við Valdimar Víðisson, oddvita Framsóknar, og óskað eftir viðræðum um myndun meirihluta Samfylkingar og Framsóknar. Sagði að þetta væru flokkarnir sem hefðu sigrað í kosningunum.

Valdimar segir í samtali við fréttastofu að engar formlegar viðræður séu hafnar. Hann hafi átt óformleg samtöl við bæði Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita Sjálfstæðismanna, og Guðmund Árna í gær.  „Við stöndum við það sem við höfum sagt, að ef meirihlutinn héldi velli myndum við byrja á því samtali. Dagurinn í dag fer í að funda með mínu fólk og undirbúa okkar fyrir formlegar viðræður.“

Valdimar er nýr oddviti Framsóknar í Hafnarfirði og segir gærdaginn hafa verið nýttan til að melta aðeins þá stöðu sem uppi er eftir kosningarnar.  „Við ætlum að taka þetta af yfirvegun, gera þetta skynsamlega og ekki ana að neinu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV