
Ný kynslóð óháðra frambjóðenda gerir sér vonir um að blása nýju lífi í þær umbætur sem vonast var eftir að mótmælaalda sem reis í landinu árið 2019 myndi leiða af sér, segir í frétt AFP.
Líkur eru taldar á að aðeins fleiri úr þeirra röðum komist á þing nú en í síðustu kosningum, þegar einungis einn óháður frambjóðandi komst á þing. Engu að síður er talið öruggt að yfirgnæfandi meirihluti þeirra 128 þingsæta sem slegist er um skiptist áfram á milli þeirra þriggja afla sem skipt hafa með sér völdum í landinu um áratugaskeið og talin eru bera ábyrgð á því hörmungarástandi sem ríkir í landinu.
Hefðbundin öfl halda fast í völdin hvað sem á dynur
Efnahagslífið er í molum í Líbanon, atvinnuleysi og fátækt í hæstu hæðum og spilling landlæg. Hvorki þetta allt né mótmælaaldan 2019, sprengingin mikla í höfninni í Beirút árið 2020 eða kosningarnar nú virðast megna að hrófla við þessu hefðbundna valdakerfi.
Venjan er sú að kosið er eftir trúarlegum línum og milli valdamikilla fjölskyldna. Hefðin mælir fyrir um að forsetinn sé úr röðum kristinna, forsætisráðherrann súnní-múslími og forseti þingsins sía-múslími. Sía-múslimar í Hesbollah voru ráðandi afl á þingi á síðasta kjörtímabili og fyrstu tölur benda til þess að það breytist ekki að þessu sinni.