
Landris og kvikusöfnun skammt frá Bláa lóni og HS Orku
Kvikusöfnunin er á svipuðum stað og fyrir tveimur árum en að kvikan nú liggi aðeins dýpra en þá:
„Nýjustu upplýsingar sýna að það er svona um helmingur af því sem safnaðist fyrir í hverju innskoti er kominn inn. Þetta er einn komma fjórir milljónir rúmmetra sem að hafa safnast þarna af kviku,“ segir Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur.
Hvað er þetta langt frá HS orku og Bláa lóninu í Svartsengi?
„Upptökin eru í rauninni þarna fyrir suðvestan Bláa lónið, vestan við Þorbjörn og miðjan er auðvitað aðeins óljós en við erum svona einhverja nokkra kílómetra. Núna höldum við bara áfram að fylgjast með og erum auðvitað að vinna úr þessum skjálftagögnum. Við höfum mælt um 400 skjálfta frá miðnætti og það hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni í rauninni eftir að það voru tveir skjálftar sem mældust þarna klukkan eitt í nótt, 3,1 og 3,2.“
Hvað eru miklar líkur á að það fari að gjósa þarna?
„Það er ekki hægt að segja til um það en við getum sagt að þetta er náttúrulega nauðsynlegur undanfari eldgoss en kannski ekki nægjanlegur. Það fer bara eftir magninu sem kemur þarna inn og svona aðstæðum í jarðskorpunni.“
Hvað hefur landrisið verið mikið?
„Hingað til eru þetta einhverjir nokkrir sentimetrar sem að mælast á yfirborði.“