Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dagur, Dóra Björt og Þórdís ætla fylgjast að í viðræðum

16.05.2022 - 08:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Oddvitar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík ætla að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, greindi frá þessu í Morgunútvarpi Rásar 2. Hann sagði ákvörðun VG um að taka ekki þátt í meirihlutasamstarfi hafa fækkað valkostum. „Það er gott að hafa breiðan meirihluta, að því gefnu að fólk sé sammála um meginlínur.“

Fjögurra flokka meirihlutastjórn Viðreisnar, Samfylkingar, VG og Pírata féll í borgarstjórnarkosningunum á laugardag. Samfylkin tapaði tveimur borgarfulltrúum, Viðreisn einum en Píratar bættu við sig manni.  VG stóð í stað og Líf Magneudóttir, oddviti flokksins, lýsti því yfir í gær að flokkurinn ætlaði ekki í meirihlutasamstarf. 

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Einar sagði flokkinn reiðubúinn að starfa með öllum og væri til í samtal við alla flokka. Hann sagði engar viðræður hafnar um myndun nýs meirihluta, hann ætlaði bara að heyra í sem flestum oddvitum sem yrðu samstarfsfólk hans næstu fjögur ár.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði oddvita fráfarandi meirihluta hafa talað saman í gær. Þar hefði Líf Magneudóttir, oddviti VG, lýst því yfir að flokkurinn myndi ekki taka þátt í meirihlutasamstarfi og það fækkaði valkostum. Hann, Dóra Björt, oddviti Pírata og Þórdís Lóa, oddviti Viðreisnar, hefðu orðið sammála um að fylgjast að í viðræðum næstu daga.  

Þar með er ljóst að möguleikar Sjálfstæðisflokks til að mynda meirihluta eru ekki miklir. Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa báðir útilokað meirihlutasamstarf við flokkinn, VG verður ekki með og Viðreisn er nú komið í bandalag með Samfylkingu og Pírötum.   

Hildur BJörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki útiloka samstarf við neinn og kvaðst alveg geta hugsað sér að teygja sig til Viðreisnar og Flokks fólksins til að mynda meirihluta með Framsókn. Mikilvægast væri að það myndaðist sterkur meirihluti enda hefði mikið af góðu fólki náð kjöri.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV