Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yngsti borgarfulltrúinn spennt að vinna fyrir ungt fólk

Mynd: Bragi Valgeirsson / Fréttir
Magnea Gná Jóhannsdóttir, yngsti kjörni borgarfulltrúi sögunnar, segir að græn bylgja hafi verið yfir Íslandi á kjördag. Hún segist afar ánægð með árangur Framsóknarflokksins, bæði í borginni og á landsbyggðinni.

Magnea, sem er 25 ára gamall háskólanemi, skipaði þriðja sæti á lista Framsóknar í Reykjavík. Hún segist hlakka til að vinna í þágu ungs fólks í borgarstjórn, og hyggst leggja áherslu á húsnæðismál, umhverfismál og leikskólamál.

Framsóknarflokkurinn átti sögulega góða kosningu í borginni. Magnea segist hafa fundið fyrir miklum meðbyr síðustu daga og vikur. Engu að síður kom það henni nokkuð á óvart hversu góður árangur Framsóknar varð.

Hún segist ætla að nota daginn í að fara í sund og hvíla sig eftir annasama daga, en rólegheitin munu vara skammt hjá nýja borgarfulltrúanum.

„Svo er ég í háskólanámi og á fimmtudaginn er próf, þannig ætli ég fari ekki í að læra fyrir það.“

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV