Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðmundur Árni vill mynda meirihluta með Framsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnars - RÚV
Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði, hefur sett sig í samband við Valdimar Víðisson, oddvita Framsóknarflokksins í bænum, og óskað eftir viðræðum um myndun meirihluta Samfylkingar og Framsóknar.

Guðmundur Árni greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þetta séu flokkarnir sem sigruðu og voru kallaðir til verka í þessum kosningum, segir Guðmundur Árni, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi. „Við sjáum hvað setur,“ skrifar bæjarstjórinn fyrrverandi. „Það væri gott fyrir Hafnfirðinga að fá félagshyggjumeirihluta í Fjörðinn.“

Framsókn og Samfylking tvöfölduðu fulltrúafjölda sinn

Einn fulltrúi Framsóknarflokksins myndaði meirihluta með fimm fulltrúum Sjálfstæðisflokks á nýliðnu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði manni í kosningum gærdagsins, en Framsókn bætti við sig einum bæjarfulltrúa og Samfylkingin tveimur og er nú með jafn marga fulltrúa í bæjarstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Sex fulltrúa þarf til að mynda meirihluta og því má segja að Framsóknarflokkurinn hafi öll ráð í hendi sér hvað það varðar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV