Valskonur mæta Fram í úrslitaeinvíginu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valskonur mæta Fram í úrslitaeinvíginu

14.05.2022 - 16:32
Það verða Valur og Fram sem mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna. Þetta er ljóst eftir að Valskonur unnu KA/Þór í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvíginu.

Staðan fyrir leikinn í dag var 2-1 fyrir Val og þær gátu því tryggt sér úrslitasætið með sigri á Akureyri. KA/Þór lenti 4-0 undir og fyrsta mark Norðankvenna kom ekki fyrr en eftir rúmar sjö mínútur. Valskonur héldu forskotinu sem þær náðu í upphafi leiks út nær allan hálfleikinn, KA/Þór minnkaði muninn niður í tvö mörk rétt fyrir hálfleikslok en þremur mörkum munaði að endingu í hálfleik, staðan 16-13 fyrir Val.

Unnur Ómarsdóttir minnkaði muninn niður í eitt mark þegar 42 mínútur voru liðnar, 20-21, en Valskonur svöruðu strax og juku muninn á nýjan leik. Tveimur til þremur mörkum munaði áfram á liðunum allt til loka og Valskonur stóðu uppi sem sigurvegarar, lokatölur urðu 30-28. Þær unnu einvígið þar með 3-1 og mæta Fram í úrslitaeinvíginu sem hefst föstudaginn 20. maí. Ríkjandi Íslandsmeistarar KA/Þórs eru hins vegar komnar í sumarfrí. 

Thea Imani Sturludóttir og Lovísa Thompson fóru fyrir liði Vals í dag. Thea skoraði 8 mörk og Lovísa 7. Í liði KA/Þórs var Rut Jónsdóttir atkvæðamest með 10 mörk.