Reyna markvisst að nota mjúkt vald Eurovsion

Mynd: RÚV / RÚV

Reyna markvisst að nota mjúkt vald Eurovsion

14.05.2022 - 14:53

Höfundar

Færst hefur í aukana að keppendur í Eurovision komi pólitískum boðskap á framfæri með ýmsum leiðum, til að mynda með því að veifa fánum og gera merki með höndunum. Stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson segir að með þessu séu Systur að styrkja sjálfsmynd Íslendinga sem friðelskandi þjóðar.

Kunnugt er að Eurovision gefi sig fyrir að vera ópólitískur viðburður en þrátt fyrir það hafa keppendur verið að koma alls konar boðskap á framfæri með ýmsum leiðum. En er raunhæft að slík keppni byggi á engri pólitík? 

Eitt kvöld þar sem horft er til sameiningar í sundrunar

„Grunnurinn er náttúrulega pólitískur, friðarboðskapur er hápólitískur alveg eins og stríðsboðskapur,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við þau Björgu Magnúsdóttur og Gísla Martein Baldursson í Morgunkaffinu á Rás 2. Hann segir að í vaxandi mæli hafi stjórnendur keppninnar litið til fjölbreytileikans, boðað að fólk eigi að fá að vera eins og það er og að lönd sýni frá hinum ýmsu menningarkimum þjóða sinna. „Það er verið að leggja áherslu á kvenréttindi, réttindi samkynhneigðra og fatlaðra,“ segir Baldur.  

„Það sem hins vegar á ekki að gera, það er verið að biðja keppendur að fara ekki í allar þessar fánaveifingar.“ Þrátt fyrir að keppendur flaggi fána sem þeim þyki vera stuðningsyfirlýsing við einhvern þá geti aðrir upplifað það sem ógn eða áreitni. „Heldur að reyna, í eina kvöldstund, að horfa frekar á það sem sameinar þá heldur en sundrar.“ 

Stjórnendur keppninnar hafa tekið fjölmenningunni fagnandi og þannig hefur keppnin útvíkkast á síðustu tuttugu árum. Baldur segir fjölbreytileikann jafnvel orðinn meira áberandi en friðarboðskapinn sem sé þó alltaf sterkur líka.  

Erfitt er þó að leggja ágreining til hliðar og sameinast í gleðinni, tónlistinni og dansinum, á meðan stríð geisar víðs vegar í álfunni. „Þetta fer svo furðulega saman. Það eru til dæmis tvær þjóðir sem keppa í kvöld, Armenía og Aserb­aísjan, sem eiga í stríði,“ segir Baldur. „Bara fyrir nokkrum misserum féllu þúsundir manna í átökum á milli þessara landa.“ Hann bætir við að einnig sé viðkvæmt ástand á milli fyrrum ríkja Júgóslavíu. „Í þessu ljósi er svo skiljanlegt að menn séu að reyna að halda gagnrýni á mismunandi þjóðir og þjóðarbrot út af sviðinu,“ segir Baldur.  

Styrkja sjálfsmynd Íslendinga sem friðelskandi þjóð 

Baldur tekur eftir að færst hefur í aukana að keppendur komi pólitískum boðskap sínum á framfæri þó svo að hann sé ekki endilega á þjóðernislegum nótum. Hann telur íslenska atriðið vera gott dæmi um þetta. „Þetta er í annað skipti sem keppendur Íslands reyna með markvissum hætti að nota mjúkt vald Eurovision til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri,“ segir hann, bæði til Íslendinga sem og alþjóðasamfélagsins. Keppendur séu að styrkja sjálfsmynd Íslendinga sem friðelskandi þjóðar sem leggi áherslu á mannréttindi, lýðræði og fjölbreytileika.  

„Kannski er grunnurinn að þessu þetta dásamlega ljóð hennar Lay Low, sem er að fjalla um hina þjáðu og undirokuðu. En þeir hafa von, það kemur von með vorinu,“ segir hann. „Og svo undirstrika keppendur þetta með framferði sínu, bæði á sviði sem og fyrir utan.“ Þær veifa regnboga- og transfánanum óspart við öll tækifæri. Fleiri keppendur flagga fána Úkraínu og hafa hann málaðan á handarbakið. „Friðarboðskapurinn er því ekki langt undan.“  

Hann segir athyglisvert að fylgjast með þessari þróun heima á Íslandi því samfélagið virðist hafa ákveðnar væntingar um að keppendur komi einhverjum skilaboðum áleiðis. „Ég held að keppendur séu þarna að taka boltann,“ segir hann og telur áhrif Hatara vara enn. Þó er hægt að deila um hvort keppendur eigi að vera með slíkan boðskap og sumir telja að atriðin eigi að standa undir sér sjálf vegna þess að þetta sé listrænn viðburður. „Það er það sem ég held að keppendur Eurovision vonist helst eftir. Að við horfum bara á þennan listræna gjörning og það sem sameinar en ekki sundrar.“ 

Rætt var við Baldur Þórhallsson í Morgunkaffinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér.

Lokakeppni Eurovision verður á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 19:00. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Tékkneski gítarleikarinn með íslenskt tattú

Sjónvarp

Skemmtilegasta vinnuferð sem hægt er að fara í

Menningarefni

Handviss um að þær verði ofar í kvöld en við höldum

Tónlist

„Maður var bara öskrandi í græna herberginu“