„Menn þurfa að drekka stíft á ákveðnum stað í kvöld“

Mynd: SARAH LOUISE BENNETT / EBU

„Menn þurfa að drekka stíft á ákveðnum stað í kvöld“

14.05.2022 - 17:20

Höfundar

Eurovision 2022 einkennist af ringulreið, að mati Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur, ritara FÁSES, sem stödd er í Tórínó ásamt Kristínu Kristjánsdóttur. Þær sakna helst San Marínó og þeirra hressu laga sem ekki komust áfram upp úr undanriðli og telja að fólk gæti þurft að bæta upp stuðið með öðrum hætti.

Úrslit Eurovision eru í kvöld og er eftirvænting meðal hörðustu aðdáenda mikil. Þær Kristín Kristjánsdóttir og Laufey Helga Guðmundsdóttir, fulltrúar FÁSES, Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, ræddu keppnina og spáðu fyrir um úrslit. 

Laufey Helga segir að Eurovision 2022 sé búið að vera mjög ruglingslegt. „En það er samt geggjað að við fáum að koma á Eurovision því það hefur ekki mátt rosalega lengi og maður er þakklátur fyrir allt sem maður fær, alveg sama hvað það er,“ segir hún í samtali við Gísla Martein Baldursson í Morgunkaffinu á Rás 2. Þrátt fyrir tæknilega örðugleika og almenn skringilegheit þykir Laufeyju ítalska sjónvarpið vera alveg frábært. „Ég hef aldrei séð svona flott opnunaratriði og flott skemmtiatriði,“ segir hún og hefur miklar væntingar fyrir kvöldinu.

Þær eru þó sammála um að hlutirnir hafi gengið furðulega fyrir sig og nefna til dæmis hvernig úrslitin voru tilkynnt á þriðjudaginn, það hafi verið skrítið sjónvarp. „Þegar maður var að fylgjast með æfingunum hérna fyrstu vikuna þá leit þetta ekki nógu vel út, það var bara allt í skralli og fólk brjálað eins og frægt er orðið,“ segir Kristín og á þá við um hinu ýmsu tæknivandamál líkt og sólina sem átti að hreyfast í íslenska atriðinu. „En svo hitti ég ítalskan vin minn í gær og hann sagði: Segðu það sem þú vilt en þetta smellur alltaf á endanum.“ 

Þær minnast einnig á það að allt freyðivínið í höllinni hafi klárast tveimur tímum fyrir keppnina og þurftu starfsmenn að hlaupa út í búð á horninu og kaupa 30 kassa af Carlsberg-bjór og selja í stúkuna. „Það er eins og það vanti kapítalistann í Ítalann,“ segja þær og hlæja.  

„Ég er pínu hrædd um að þetta verði aðeins of dramatískt ballöðukvöld“ 

Undanúrslit geta alltaf komið á óvart og mörg lög verða eftir sem áhorfendur sakna á lokakvöldinu. „Ég sá mikið eftir Georgíu og San Marínó,“ segir Laufey sem fannst Belgía ekki eiga skilið að komast áfram þrátt fyrir að þykja lagið ágætt. „Hann hafði ekki marga með sér. Meira að segja Belgar voru bara: Ha? Komumst við áfram? Já, hver andskotinn.“  

„Ég var mjög hissa að sjá á þriðjudaginn að Sviss og Litáen höfðu komist áfram,“ segir Kristín sem tekur undir að hún hefði viljað sjá San Marínó og véltuddann, það vanti aðeins upp á hressu lögin. „Ég er pínu hrædd um að þetta verði aðeins of dramatískt ballöðukvöld,“ segir hún. „Menn þurfa að drekka dálítið stíft þarna á ákveðnum stað í kvöld.“  

„Þegar ég horfi á uppröðunina þá eru þeir dálítið búnir að slátra Sviss og Armeníu strax,“ segir Laufey vegna þess að beggja megin við þau eru lög sem talin eru mjög sigurstrangleg. Frakkland er á undan Sviss og Finnar á eftir en Noregur er á undan Armeníu og Ítalía á eftir. „Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort þau hafi komið inn í níunda og tíunda sæti á þriðjudaginn.“ 

Lægsti samnefnarinn gæti unnið 

Veðspár og Eurovision haldast venjulega hönd í hönd og er kvöldið í kvöld þar engin undantekning. „Menn eru núna að veðja hver er að fara að taka símakosninguna og hver dómnefndakosninguna,“ segir Kristín. „Svo er það þessi stóri fíll sem Úkraína er, er þetta alveg in the bag eða erum við öll í eintómu meðvirkniskasti og einhver annar er að fara að taka þetta mjög óvænt?“  

Sjálf er Kristín að veðja á að Bretinn verði eftirlæti dómara í kvöld. „Það er eina lagið sem ég horfði á æfingu hjá og fékk rosalega vinningstilfinningu,“ segir hún og bætir við að í fyrra hafi hún fengið svipaða tilfinningu við lagi Ítala. Hún segir að þá sé þetta spurning um hve mörg dómnefndaratkvæði Bretland fái á móti símaatkvæðum til Úkraínu. „En síðan gæti lægsti samnefnarinn, Svíþjóð, unnið.“ Svíar gætu lent í öðru sæti í sitt hvorri kosningunni og siglt sigrinum þannig heim. „Og við höldum Eurovision í Gautaborg.“ 

Þær stöllur verða heldur betur í höllinni í kvöld en úrslit Eurovision eru á dagskrá á RÚV kl. 19.  

Rætt var við Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur og Kristínu Kristjánsdóttur í Morgunkaffinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Reyna markvisst að nota mjúkt vald Eurovsion

Sjónvarp

Tékkneski gítarleikarinn með íslenskt tattú

Sjónvarp

Skemmtilegasta vinnuferð sem hægt er að fara í

Menningarefni

Handviss um að þær verði ofar í kvöld en við höldum