Galdurinn er að reyna ekki að búa til vinningsatriði

Eurovision 2022 fer fram á Tórínó Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd
 Mynd: EBU

Galdurinn er að reyna ekki að búa til vinningsatriði

13.05.2022 - 13:40

Höfundar

Þriðja árið í röð er Ísland með á úrslitakvöldi Eurovision. Glansandi BDSM fatnaður, ólar með göddum, palestínski fáninn í græna herberginu og skýr skilaboð um að hatrið muni sigra. Daði í pixluðu peysunni sinni að pæla einlæglega í því hvernig ástarsamband hans og Árnýjar geti orðið betra eftir öll þessi ár. Og nú Systur og Lay Low.

Seiðmagnað lag með þannig harmóníu í röddunum að fólk staldrar við. Þó áhorfendur í Þýskalandi, Moldóvu eða Úkraínu skilji ekki orðin skammdegisskuggar, klakabönd og vænghaf, skilja þau samt tilfinninguna. Og þá er markmiði Eurovision náð, að lönd í Evrópu nái að gleðjast saman eitt kvöld á ári.

„Tilfinningin að koma Íslandi í úrslit þriðja árið í röð er hrikalega skemmtileg og mikill sigur að mínu mati. Galdurinn finnst mér sá að vera ekki að velta sér of mikið upp úr því að búa til eitthvað vinningsatriði fyrir Eurovision. Frekar að vinna með góða lagasmíð sem við pökkum inn í magnaða, einlæga og skemmtilega upplifun fyrir áhorfendur,“ segir Salóme Þorkelsdóttir pródúsent íslenska Eurovision-atriðisins og meðlimur í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar síðan 2018. Hún missti sig algjörlega í fagnaðarvímu síðastliðinn þriðjudag eins og fleiri. „Ég öskraði alveg hreint yfir mig og titraði af kæti! Það féllu jafnvel nokkur gleðitár,“ segir hún sposk.

Margra mánaða ferðalag

Ferli íslenska lagsins hefur staðið yfir síðan í fyrra þegar lagahöfundurinn, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, samdi það. Salóme rifjar upp þegar hún heyrði lagið fyrst. „Lagið höfðaði strax mjög til mín enda alveg gífurlega vel heppnuð lagasmíð hjá Lovísu. Þetta seiðandi og dulúðuga kántrýþema hitti alveg í mark. Hausinn á mér fer nú yfirleitt strax af stað í hugmyndavinnu þegar ég heyri lögin í fyrsta skipti fyrir Söngvakeppnina og það átti svo sannarlega við í þetta skipti.“ Salóme útskýrir að hún hafi strax séð fyrir sér lágstemmt og kúl atriði en samt yrði að vera bjart yfir. „Við vildum einblína á styrkleika systranna, sem er að flytja lifandi tónlist af sviði,“ segir hún. Eins og áhorfendur upplifa sterkt var innblástur sóttur í sjöuna. „Fyrirmyndirnar voru því aðallega þessar gífurlega mögnuðu og flottu tónlistarkonur frá sjötta áratugnum og má þar nefna Joni Mitchell, Stevie Nicks, Heart og fleiri neglur. Til að ýta undir tónleikastemninguna kom Eyþór bróðir inn á trommur.“

Lágstemmt en fullt af ljósi

Unnur Elísabet Gunnarsdóttir leikstjóri atriðisins kom inn í ferlið snemma í janúar með Systrum, Salóme og Lovísu. Hún segir ferlið hafa verið virkilega skemmtilegt og gefandi. „Við tengdumst strax sterkum listrænum böndum og vorum alveg á sömu blaðsíðu. Mikill heiður að fá að vinna með svona hæfileikaríkum listamönnum og sjá þær vaxa og springa út á sviðinu. Mér finnst lagið ofsalega fallegt og það í rauninni leiddi mann áfram í þá átt sem atriðið þurfti að fara. Lágstemmt en fullt af ljósi og fegurð eins og þær systur eru. Maður sá fljótt að það þurfti engar sprengjur á sviðinu eða loftfimleika einungis þær, þeirra einlægni og útgeislun.“

Salóme tekur heilshugar undir þetta. „Þær Systur eru náttúrlega stórfenglegar tónlistarkonur og raddir þeirra, einlægni og hlýja nær áhorfandanum strax á þeirra band. Því er markmiðið með atriðinu að láta þær skína sem skærast með sínum magnaða og seiðandi flutningi.“

Unnur segir að mikil ánægja hafi ríkt með atriðið í Söngvakeppninni, grafík, lýsingu og myndvinnslu. „Og það var alveg einstakt að fylgjast með Salóme vinna sína vinnu sem pródúsent. Samstarf sem ég mun aldrei gleyma.“

Galdurinn í laginu er þau

Þegar til Ítalíu var komið voru gerðar smávægilegar breytingar á atriðinu. „Þetta var auðvitað nýtt svið með risastórri sól sem fyrir mörg önnur atriði kom sér ansi illa en hentaði vel fyrir okkar atriði. Þá fórum við bara alla leið og notuðum sólina í takt við lagið. Þvílík gæsahúð að sjá þær standa á sviðinu í Torínó umvafðar hækkandi sól og hlýju. Galdurinn í atriðinu er einfaldlega þau. Ég hugsa að fólk í heiminum í dag þrái að fá fegurð og ró inn í líf sitt sem þetta lag er svo sannarlega. Maður fann hvað salurinn varð agndofa við flutning þeirra systra og það er einhvern veginn eins og þær séu með heilunarkraft í röddunum sínum.“ Unnur segist hafa verið meðvituð um töfrana, og trúað á þá frá upphafi. „Það er eitthvað alveg einstakt við þennan systkinahóp, bæði í sviðssjarma og söng. Heimsklassa tónlistarmenn sem við munum sjá mikið af í framtíðinni.“

Nýtt efni á leiðinni

Það er víst óhætt að fullyrða að heimurinn sjái meira af þeim, því von er á nýju efni frá Systrum eins og Anna Hildur, annar umboðsmaður þeirra, útskýrir. „Það liðu ekki nema tveir dagar frá því að Systur unnu Söngvakeppnina á Íslandi þangað til þær fóru í stúdíó til að taka upp nýtt efni. Afraksturinn eru tvö lög sem eru tilbúin til útgáfu og heita, Dusty Road og Goodbye Lover. Það er stefnt að því að þau komi út á næstu vikum,“ segir hún og bætir við að Systur eigi töluvert mikið af óútgefnu efni sem rími við stílinn í Með hækkandi sól og teljist til Americana-tónlistarstefnunnar. „Það má líka alveg búast við því að þær haldi áfram samstarfi við Lovísu í tengslum við þetta. Systur fara síðan í hljóðver aftur fljótlega til að taka upp meira efni. Þær eru að skoða upptökustjóra til að vinna með og horfa til Bandaríkjanna í þeim efnum.“

Heimsyfirráðin eru greinilega á næsta leyti hjá Systrum eftir þennan stórkostlega og litríka rússíbana hjá þeim síðustu mánuði. Ísland er númer 18 í röðinni annað kvöld, sem ku vera frábær staður í keppninni. Gísli Marteinn Baldursson verður tilbúinn með á þriðja þúsund pabbabrandara klukkan 19:00 stundvíslega. Ekki missa af stóru veislunni!

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU

Tengdar fréttir

Menningarefni

Systur í „besta sætinu“ á lokakvöldi Eurovision

Fjórar Norðurlandaþjóðir á úrslitakvöldi Eurovision

Tónlist

Vill hjálp við að senda Systrunum skilaboð

Tónlist

„Við fengum sérstaka heimild til að koma hingað“