HM hótel í Katar neita að hýsa samkynhneigða

Mynd með færslu
 Mynd:

HM hótel í Katar neita að hýsa samkynhneigða

12.05.2022 - 09:16
Rannsókn norrænu fjölmiðlanna NRK, DR og SVT hefur leitt í ljós að fjöldi hótela sem FIFA mælir með fyrir gesti HM í fótbolta í ár neitar að hýsa samkynhneigða gesti

Lengi hefur staðið styr um að halda HM karla í fótbolta í Katar. Fyrst var aðbúnaður verkafólks í landinu í sviðsljósinu og síðar hefur verið bent á aðbúnða LGBTQ+ fólks í Katar. Samkynhneigð er bönnuð með lögum í Persaflóaríkinu.

Þrátt fyrir það sagði Gianni Infantino, forseti FIFA, á FIFA-þinginu í mars, sem var einmitt haldið í Katar, að allir væru velkomnir á mótið. 

Norrænu ríkismiðlarnir NRK, DR og SVT ákváðu að athuga málið meðal þeirra 69 hótela í Doha sem FIFA hefur mælt með að gestir noti meðan á mótinu stendur.

3 af 69 vilja ekki samkynhneigð pör

Fjölmiðlarnir höfðu samband við öll 69 hótelin, ýmist í síma eða tölvupósti. Blaðamenn þóttust vera sænskur eða norskur karlmaður sem væri nýgenginn í hjónaband með öðrum karlmanni og ætlaði í brúðkaupsferð til Katar. Þeir sögðust hafa heyrt af því að það gæti verið vandkvæðum bundið að vera samkynhneigður í Katar og hvort það væri í lagi að dvelja á viðkomandi hóteli.

Þrjú hótelanna sögðust ekki taka á móti samkynhneigðum pörum; The Torch Doha, Magnum Hotel & Suites Westbay og Wyndham Grand Regency. Þau tvö síðarnefndu svöruðu neikvætt í síma en The Torch svaraði í tölvupósti og sagði það andstætt stefnu hótelsins að hýsa samkynhneigð pör. 

Í viðbót við hótelin þrjú sem svöruðu neikvætt tóku tuttugu önnur fram að það væri ráðlegt að sýna ekki samkynhneigð sína. 33 hótel höfðu ekkert við fyrirspurn fjölmiðlanna að athuga, og 13 hafa ekki svarað. 

Leituðu svara knattspyrnusambandanna

FIFA og skipuleggjendur HM í Katar hafa ítrekað sagt að allir séu velkomnir á mótið, sem hefst í nóvember.

NRK, DR og SVT báru niðurstöður sínar undir knattspyrnusamband Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki ásættanlegt, né í samræmi við það sem HM nefndin hefur lofað, að það sé tryggt lagalegt öryggi meðan á mótinu stendur. Til að finna til öryggis þarftu að vita fyrirfram að öryggið sé tryggt. Við erum þar í tíma núna svo þetta verður að vera í lagi,“ segir Lise Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandsins í samtali við NRK.

„Í sannleika sagt er þetta fjarstæðukennt. Þetta eru okkur vonbrigði. Það eru vonbrigði fyrir stuðningsfólk sem vill fara á HM. Að þau geti ekki upplifað öryggi á hóteli, sama hver kynhneigðin er. Það skiptir engu hver kynhneigðin er og við væntum þess að þetta verði skýrt fyrir HM,“ segir Jakob Jensen, framkvæmdastjóri danska knattspyrnusambandsins við DR. Danir eru eina Norðurlandaþjóðin sem er með á HM.

FIFA lofar öryggi

Fjölmiðlarnir sendur fyrirspurn til FIFA um öryggi gesta HM. Þar á meðal hvernig öryggi væri tryggt ef sum hótel neita að hýsa samkynhneigða gesti. 

Spurningunni var ekki svarað beint, heldur var áréttað að Katar væri fyllilega upplýst um skyldur sínar að uppfylla væntingar FIFA og að mannréttindi, jafnrétti og fordómaleysi væri virt.

„FIFA er þess fullvisst að allt verður til staðar fyrir LGBTQ+ stuðningsfólk þannig að þau, líkt og aðrir, geti fundist þau velkomin og örugg á mótinu,“ segir FIFA.

Gestgjafarnir sjálfir segja í sínu svari að það sé ætlun þeirra að halda HM fyrir alla, þar sem öllum finnist þau vera velkomin og örugg. Á sama tíma leggur skipulagsnefnd Katar áherslu á það að landið sé íhaldssamt og það sé ekki viðurkennt að sýna ást sína opinberlega, sama hver kynhneigðin sé.

„Við biðjum fólk að virða okkar menningarlegu gildi, en leggjum líka áherslu á sterka menningu virðingar fyrir einkalífi sem er alltumlykjandi í Katar,“ segir skipulagsnefndin skriflegu svari til NRK, DR og SVT.

Nefndin segist hafa tekið upp feril meðal allra sem koma að HM að mótið verði haldið án misréttis. Þetta ferli á við um alla, bæði einstaklinga og stofnanir, sem þjónusta mótið með einhverjum hætti. Það gildi um hótelin líka. Nefndin segist fylgjast náið með því að ferlinum sé fylgt og brot séu litin alvarlegum augum og bað um nánari upplýsingar um niðurstöður rannsóknarinnar til að geta fylgt málinu eftir.

Dróg í land þegar hulunni var svipt af

NRK, DR og SVT hafa aftur haft samband við þau hótel sem neituðu og upplýst um raunverulegan tilgang fyrirspurnanna. Magnum Hotel & Suites Westbay staðfesti að það væri stefna hótelsins að neita samkynhneigðum pörum um aðgang.

The Torch neitaði fyrst að hafa neitað samkynhneigðum, þrátt fyrir að það stæði skýrt í skriflegu svari hótelsins. Í nýju svari segir hótelið að allir séu velkomnir en ekki sé í lagi að sýna ástleitni opinberlega.

Wyndham Grand Regency neitar áfram að samkynhneigðir megi gista á hótelinu. Það sé ekki regla hótelsins, heldur lög í Katar:

„Það getur breyst út af HM, við vitum ekki nákvæmlega hverjar reglurnar verða. Það eru sumar reglur sem geta breyst vegna HM. Þau muni gera undantekningar,“ segir hótelið í svari til norrænu fjölmiðlanna.

Umfjöllun NRK, DR og SVT má sjá á heimasíðu NRK hér, DR hér og SVT hér.

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Fréttamenn NRK handteknir og látnir lausir í Katar

Asía

Amnesty segir Katar hafa brugðist verkafólki