Fimm ný sveitarfélög fá nafn eftir kosningar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar í tveimur nýsameinuðum sveitarfélögum taka þátt í ráðgefandi skoðanakönnun um nafn á sveitarfélögin samhliða sveitarstjórnarkosningunum á laugardag. Í þremur sameinuðum sveitarfélögum til viðbótar er slík skoðanakönnun ýmist búin, eða verður gerð eftir kosningar.

Velja nafn samhliða sveitarstjórnarkosningum

Íbúar í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps velja á milli þriggja nafna á laugardaginn. Það eru Blöndubyggð, Húnabyggð og Húnavatnsbyggð.

Einnig velja íbúar í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar á milli þriggja nafna á laugardag, sem eru Hegranesþing, Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagafjörður.

Þingeyskir íbúar hafa þegar sagt sitt álit 

Íbúar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, sem samþykktu sameiningu í sumar, hafa þegar tekið þátt í rafrænni skoðanakönnun um nýtt nafn. Þar var valið á milli nafnanna Þingeyjarsveit, Suðurþing, Goðaþing og Laxárþing. Langflestir völdu Þingeyjarsveit. 

Niðurstöður þessara kannana eru leiðbeinandi fyrir nýjar sveitarstjórnir, sem taka endanlega ákvörðun um nafn samkvæmt lögum.

Þrjár tillögur til Örnefnanefndar  

Þann 5. maí lauk rafrænni skoðanakönnun um nýtt nafn á sameinað sveitarfélag Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Þar völdu flestir íbúar nafnið Langanesbyggð, en Norðausturbyggð og Langanes hlutu einnig stuðning. Björn S. Lárusson, skrifstofustjóri Langanesbyggðar, segir að þessi þrjú nöfn verði send til umsagnar hjá Örnefnanefnd. Eftir úrskurð þar verði það ný sveitarstjórn sem taki ákvörðun um nafn.

Safna hugmyndum að nýju nafni eftir kosningar

Í nýju sveitarfélagi, sem varð til við sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar, hefur enn ekki verið lögð fyrir íbúana könnun um nafn á sveitarfélagið. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar, býst við að rafræn hugmyndasöfnun fari fram fljótlega eftir að ný sveitarstjórn hefur verið kosin. Það verði svo að lokum verkefni hennar að velja nafn.