„Þau eru búin að vinna í mínum huga“

Mynd: Ellen Kristjánsdóttir / Ellen Kristjánsdóttir

„Þau eru búin að vinna í mínum huga“

10.05.2022 - 17:54

Höfundar

Systkinin Sigga, Elín, Beta og Eyþór freista þess að komast í úrslit Eurovision í fyrri undankeppninni sem fer fram í Torino í kvöld. Foreldrar þeirra, tónlistarfólkið Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, fylgjast með keppninni frá Íslandi í kvöld en þau ætla að halda veglegt Eurovion-partí.

„Ég er rosalega spennt. Eins og ég sagði við þau í gær þá eru þau búin að vinna í mínum huga. Þau eru búin að gera þetta svo vel og vera með frábær skilaboð og ég er rosalega stolt af þeim. Ég held að þau komist áfram og þá er aldrei að vita nema ég skelli mér út,“ segir Ellen. 

Væru til í að vera úti

Ellen og Eyþór tóku ákvörðun um að vera heima í kvöld með barnabörnunum. Þau segjast vera öfundsjúk út í öll þau sem eru úti í Torino í kvöld en að þau muni engu síður gera sér glaða kvöldstund.  „Við verðum með partý í kvöld klukkan sjö. Við erum búin að leigja sal og 75' tommu flatskjá. Allir nánustu vinir og ættingjar ætla að koma,“ segja Ellen og Eyþór.

Fyrsta æfing Systra, Siggu, Betu og Elínar í Pala Olimpico höllinni í Tórínó
 Mynd: EBU
Systkinin stíga á svið í Torino í kvöld. Foreldrarnir segjast vera með spennuhnút í maganum.

Eyþór var nýkominn úr símanum við krakkana og sagði þau vera vel stemmd fyrir kvöldinu.„Hljóðið í þeim er bara mjög gott. Þau voru að klára eina æfingu og það er búið að laga hljóðið og það var allt í góðu hjá þeim núna. Þau eru bara peppuð. Þau voru að fara í viðtal við danska ríkisútvarpið,“ bætir Eyþór við.  

Full tilhlökkunar

Ellen og Eyþór  segjast ekki vera afbrýðisöm að fá ekki stíga á svið með börnum sínum í kvöld. Þau séu fyrst og fremst spennt að fylgjast með þeim. „Við erum aðallega afbrýðisöm að vera ekki þarna með úti með þeim. En nei, þetta er þeirra ferðalag núna. Við erum bara að gera eins og foreldrar okkar gerðu. Að fylgjast stolt með og passa barnabörnin.“