Þarf sjálf oft að lúffa

Mynd: Ungir fréttamenn / Ungir fréttamenn

Þarf sjálf oft að lúffa

10.05.2022 - 10:00

Höfundar

Oft getur myndast núningur innan stórhljómsveita vegna þess að ekki geta allir fengið að stjórna. Sigrún Eðvaldsdóttir, sem hefur gegnt stöðu konsertmeistara í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1998, segir að þrátt fyrir erfið augnablik ríki mikill samhugur og hún skemmti sér aldrei betur en með félögunum í hljómsveitinni

Sigrún Eðvaldsdóttir er einn fremsti fiðluleikari landsins. Hún hóf fiðlunámið ung og hefur ferðast víða um heim, bæði til að læra meira og spila í mörgum af virtustu tónleikahúsum heims. Hún er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands.  

Sefur best við fiðluleik

„Ég var víst alveg brjálæðslega hress og skemmtileg,“ segir Sigrún, um sjálfa sig sem barn, við Andra Frey Viðarsson í Sunnudagssögum á Rás 2. Sigrún ólst upp í Garðabæ sem þá var enn hálfgerð sveit. Mamma hennar var úr Hafnarfirði og pabbi hennar fæddist í torfbæ að Kálfshamarsvík á Skaga. „Árið 1937, það er ekki lengra síðan.“ 

Móðir Sigrúnar lék á fiðlu sem ung stúlka. Hún spilaði ekkert í um það bil tuttugu ár en tók bogann upp á ný, þegar Sigrún var fimm ára, og gerðist fiðlukennari. Þær voru tvær systurnar og léku báðar á fiðlu, ásamt móður sinni. „Stundum vorum við allar þrjár, í sitthvoru herberginu, að æfa okkur og þá sagði pabbi að honum þætti best að leggja sig,“ segir Sigrún og minnist þess að þá hafi sjómaðurinn sofið mjög vært.  

„Ég var ferlega dekruð“ 

„Ég var sautján ára þegar ég lagði land undir fót og fór út að æfa, ég var ansi ung,“ segir Sigrún sem byrjaði fimm ára að læra á fiðlu og var sennilega svolítið fljót til. „Ég bjó að því að eiga rosalega útsjónarsama móður, hún svoleiðis gerði allt fyrir mann,“ segir Sigrún og nefnir að hún hafi verið keyrð um allt. „Ég veit alveg að börn í dag eru líka mjög dekruð en ég var ferlega dekruð,“ bætir hún við og hlær. Hún segir að mamma hennar hafi alltaf verið að spara til að geta átt peninga fyrir þær systur og það sem þær þyrftu að gera.  

Sem betur fer auðmýkri í dag 

En áttaði fullorðna fólkið sig á því hve hæfileikarík Sigrún var? „Ég held að mamma hafi fattað það,“ segir Sigrún og bætir við að henni hafi fundist hún hafa fengið einhverja vöggugjöf. „Ég er sammála því og maður á að þakka fyrir gjafirnar sínar. Og maður á ekkert að skammast sín fyrir það.“  

„Þegar ég var yngri þá var ég kannski svolítið hofmóðug,“ segir Sigrún og hlær. Hún hafi alveg áttað sig á því að hún væri fremri mörgum öðrum í fiðluleik. „En sem betur fer er ég orðin miklu auðmýkri í dag. Það er til svo mikið af frábærum fiðluleikurum og mér finnst bara gaman að vera í þeirra hópi. Stundum finnst mér ég vera í mjög góðum félagsskap.“  

Hún segir að Ísland sé svo lítið og hér hafi hún skarað fram úr en hún hafi fengið menningarsjokk þegar hún fór utan til náms. „Sem var bara mjög gott.“ Vorið 1984, þegar hún var sautján ára, flutti hún til hjóna í Illinois í Bandaríkjunum sem hún hafði kynnst á sumarnámskeiði og voru framúrskarandi fiðlukennarar. „Þau sögðu: Við skulum bara taka á móti þér og undirbúa þig fyrir stóru skólana. Þú mátt koma og búa hjá okkur.“ 

Kunni ekkert að hugsa um sjálfa sig 

„Síðan tekur alvaran við vegna þess að um haustið 1984 fer ég í tónlistarháskólann Curtis í Philadelphiu, sem var svakalega góður skóli,“ segir Sigrún. Hver sá sem komst í gegnum inntökuprófin í skólann fékk ókeypis skólavist í fjögur ár. „Sem er náttúrulega alveg æðislegt,“ segir Sigrún. Hún komst einnig inn í Juilliard tónlistarskólann á styrk en valdi Curtis sem var mun minni og þar var betur hugsað um einstaklinginn.  

Sigrún kom alltaf heim um jólin og á sumrin enda með mikla heimþrá. „Ég var svo mikið barn, ég kunni ekkert að hugsa um sjálfa mig,“ segir hún. „En svo lærir maður af lífinu, á endanum. Og það rættist úr mér.“ Hún segist einnig oft hafa fengið að koma heim til að spila á tónleikum á öðrum árstímum. „Ég var algjör lukkunnar pamfíll.“ 

„Við vorum alveg agaleg“ 

Í háskólanum eignaðist Sigrún kærasta sem var bassaleikari frá New York. „Hann var eins og stóri bróðir minn, við vorum tvö egó,“ segir Sigrún. Hún vildi fara heim á sumrin en hann til Aspen að spila golf. „Við vorum alveg agaleg, þetta entist ekki.“ Þessi tími var þó skemmtilegur, það var mikið fjör í kringum hann og hún fékk að kynnast Upstate New York gríðarlega vel. „Svo gerist það að þegar ég er nýútskrifuð fæ ég símhringingu frá Miami,“ þá átti að stofna strengjakvartett við tónlistarháskólann New World School of the Arts og var Sigrúnu boðið að þreyta prufuspil. „Ég gerði það og það var svo sjúklega gaman. Og ég fékk starfið,“ segir hún og átti tvö ævintýraleg ár í Miami þar sem kærastinn kom og heimsótti hana.  

„Lífið er svo fyndið, hvert það leiðir mann,“ segir Sigrún. Þegar hún venti kvæði sínu í kross og fór frá Ameríku 1992, var hún byrjuð að keppa í fiðluleik. „Þá var svo mikið að gerast, ég var alltaf að fá tónleika út á verðlaunin og þetta vatt svo mikið upp á sig. Sem var æðislegur tími,“ segir hún. Það var þá sem þau skötuhjúin ákváðu að láta leiðir skilja. „Þá ákvað ég að fara heim aðeins, til að hugsa málið og svo komst ég í samband við umboðsmann í Englandi.“ Þangað fór Sigrún og tók við hverju tækifæri sem henni gafst og óx sem tónlistarmaður. „Það var æðislegur tími, þar var ég bara á mínum forsendum að spila.“  

Heimsókn til Hemma Gunn leiddi til nýrrar fiðlu 

Auk þess að ferðast um víðan völl og leika á tónleikum var Sigrún einnig tíður gestur hjá Hemma Gunn þar sem hún skemmti áhorfendum með fiðluleik. „Hann var alltaf brjálæðslega sætur við mig, og svo bað hann mig að vera gestur. Þá var ég brjálæðslega feimin ung stúlka,“ segir Sigrún. Þetta var árið 1991, áður en hún flutti frá Bandaríkjunum. „En hann var svo yndislegur við mig og skemmtilegur að þetta gekk bara mjög vel.“ Hún var aðalgestur eitt kvöldið og var þá byrjuð að hasla sér völl erlendis en í ljós kom að hún átti alls ekki nógu góða fiðlu. 

Eftir þáttinn höfðu nokkrar konur samband við Hemma Gunn og vildu stofna styrktarsjóð fyrir Sigrúnu. Fólk hafði mikla skoðun á þessu máli en pabbi hennar, sem var mjög stoltur maður, sagði við hana: „Sigrún, ef fólk vill kaupa handa þér fiðlu þá er það allt í lagi mín vegna.“ Þetta tók sinn tíma en það tókst að safna ágætisupphæð sem Sigrún nýtti til að kaupa sér góða fiðlu, ásamt því að taka lán fyrir henni. „Okkur tókst þetta á endanum.“ 

Hljómsveitir eru ekki diplómatískar  

Eins og fyrr segir var mikið um að vera hjá Sigrúnu því hún sagði já við öllu sem bauðst. „Þetta tók alveg á, maður verður að hlúa að sér,“ segir Sigrún því þrátt fyrir að ástríðan sé fyrir hendi kulni margir í starfi. „Og ég fann að ég var dálítið dösuð. En þá gerist nefnilega það að Sinfóníuhljómsveitin er að auglýsa eftir stöðu í tvö ár.“ Guðný Guðmundsdóttir, fyrrverandi kennari Sigrúnar, hafði þá ákveðið að taka sér starfsleyfi. Guðný hafði látið Sigrúnu vita af fyrirætlan sinni og athugað hvort hún hefði áhuga á stöðu konsertmeistara. „Ég sagði neineinei, ég er ekkert tilbúin í eitthvað svona,“ segir hún. „En svo bara leið mánuður og þá fann ég að ég þurfti jarðsambandið mitt aftur. Ég ákveð að kýla á þetta og taka þetta prufuspil.“ Sigrúnu hlotnaðist starfið og var fegin því að koma heim. „Ég fór út svo ung. Það var svo gaman að fá að búa á Íslandi aftur svo ég fékk mjög mikið út úr þessu.“ Þetta var árið 1998 og hún hefur verið konsertmeistari síðan.  

Konsertmeistari er nokkurs konar mannauðsstjóri hljómsveitarinnar og hlúir að starfsfólkinu. „Það er ýmislegt á herðum konsertmeistarans. Hann er í fyrsta lagi mjög mikilvægur tengiliður milli stjóranda og hljómsveitarinnar,“ segir Sigrún sem hefur marga undir sínum hatti. Hún segir að það geti alveg myndast núningur innan sveitarinnar og það sé ekkert auðvelt. „Einhver sagði að hljómsveitir væru ekki diplómatískar.“ Það geti ekki allir ráðið. „Það er meira að segja ég sem þarf að lúffa, það er bara hluti af starfinu mínu. Ég er oft bullandi ekki sammála stjórnanda en ég segi bara ekki neitt og geri það sem ég er beðin um að gera.“ Sumum þyki þetta mjög erfitt en þegar allt kemur til alls er mikill samhugur í sveitinni. „Ég segi oft: Þessi hljómsveit, hún kann sko að skemmta sér.“ Og það sé vegna þess að þeim sé svo annt um hvert annað og láti sér ekki standa á sama.  

Rætt var við Sigrúnu Eðvaldsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hægt er að hlýða á þáttinn í heild sinni hér.  

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Sinfóníuhljómsveitin í skýjunum yfir viðtökum