Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hætti í skyndingu við lendingu til að forða árekstri

epa04679702 An undated handout picture isued by Airbus company of an interior view of a Airbus A320 cockpit simulator. One of the two pilots was locked out of the cockpit on Germanwings flight 4U9525 when it crashed in the French Alps on 24 March 2015,
 Mynd: EPA - AIRBUS
Flugmenn þotu mexíkóska lággjaldaflugfélagsins Volaris þurftu í skyndingu að hætta við lendingu á Benito Juarez flugvellinum við Mexíkóborg til að koma í veg fyrir árekstur við þotu félagsins sem fyrir var á flugbrautinni.

Flugfélagið greindi sjálft frá atvikinu sem varð í fyrrakvöld en lét ekkert uppi um hverrar gerðar þoturnar eru, flugnúmer þeirra eða hversu margir voru um borð. Myndskeið sem farið hefur sem eldur í sinu um netheima sýnir að vélarnar eru af Airbus-gerð. 

Enrique Beltranea, stjórnarformaður Volaris, þakkaði þjálfun og snarræði flugmanna félagsins að áhöfn og farþegar flugvélanna tveggja voru ekki í hættu. 

Gríðarleg umferð er um flugvöllinn og því hóf ríkisstjórn Mexíkó undirbúning að lagningu annars í úthverfi borgarinnar. Andres Manuel Lopez Obrador núverandi forseti lagði þær áætlanir til hliðar og þess í stað var nærliggjandi herstöð gerð að flugvelli fyrir almennar flugsamgöngur. 

Umferð þar er harla lítil enn og einkum fara þar um flugvélar í innanlandsflugi. Mexíkóskir fjölmiðlar greina frá því að Victor Hernandez Sandoval, embættismaður sem dró upp flugleiðir við borgina hafi sagt af sér eftir atvikið í fyrrakvöld. 

Sérfræðingar eru efins um að unnt sé að reka tvo flugvelli við borg sem umlukin er fjöllum og stendur í 2.200 metra hæð yfir sjávarmáli. Alþjóðasamtök flugmanna sögðu í seinustu viku að vandi gæti steðjað að áhöfnum verði flugleiðum breytt svo þjóna megi tveimur völlum.