Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Blaðamannafélagið vísaði frá kærum gegn Mannlífi

05.05.2022 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur vísað frá tveimur kærum á hendur Reyni Traustasyni, ritstjóra vefmiðilsins Mannlíf.is. Þriðja kæruefnið taldi nefndin ekki brjóta í bága við siðareglur félagsins.

Þrjár kærur bárust Blaðamannafélaginu 23. febrúar á þessu ári frá sama kæranda, sem óskaði að siðanefnd tæki þær til umfjöllunar. Kæran sneri að þremur veffréttum sem birtust á vef Mannlífs um Ómar Valdimarsson, lögmann.

Eðlilegra að beina kærunni að Fréttin.is

Fyrri tvær fréttirnar, sem birtar voru í dálkinum „Orðrómur“, skrifaði Mannlíf upp úr umfjöllun vefsíðunnar Fréttin.is og taldi siðanefndin „eðlilegra að beina kærunni á hendur þeim miðli“. Siðanefndin tók því ekki efnislega afstöðu til birtingar þeirra og vísaði kærunum frá. 

Efni fyrstu fréttarinnar voru meint skattsvik Ómars, þar sem hann var sagður hafa þegið greiðslur skjólstæðinga án þess að gefa þær upp til skatts. Önnur fréttin snerist um að kærandi hefði ætlað að stefna netverja vegna myndbirtingar á Facebook. Báðar fréttirnar vísuðu í Fréttin.is sem frumheimild og því vísaða siðanefnd kærum gegn Mannlífi frá.

Þriðja kæran ekki brot gegn siðareglum

Þriðja kæran var sú eina sem siðanefndin tók til efnislegrar skoðunar. Í þeirri frétt fjallaði Mannlíf um ákúrur siðanefndar lögmanna fyrir að ofrukka veikan skjólstæðing. 

„Varðandi þriðja kæruefnið er það álit siðanefndar að þar sé farið með rétt mál og kæri teljist ekki hafa brotið siðareglur í því atriði,“ segir í úrskurði siðanefndarinnar.