
Segir tímabært að opna dýraathvarf á Akureyri
Kisukoti lokað
Kisukot á Akureyri hefur undanfarin tíu ár tekið að sér heimilislausa ketti, í heimahúsi. Þeirri starfsemi verður lokað á næstunni þar sem heilbrigðisfulltrúi fór fram á að rekstraraðili uppfyllti tilskilin leyfi fyrir starfseminni. Því verður ekkert athvarf fyrir villiketti eða önnur dýr á vergangi í bænum.
Sjá einnig: Kisukoti gert að sækja um starfsleyfi
Bæjarráð tók svo í síðustu viku undir bókun heilbrigðisnefndar um að bærinn ætti að kanna hvort hægt sé að koma á koppinn dýraathvarfi.„Bæjarráð tekur undir bókun heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra um að Akureyrarbær ætti að kanna hvort fært er að koma á samstarfi um rekstur dýraathvarfs í heppilegu húsnæði, enda um að ræða þarfa þjónustu að ræða og varðar skyldur og þjónustu sveitarfélaga," segir í bókun.
Með stækkandi samfélagi verður verkefnið stærra
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akureyri segir þörfina vera til staðar. „Við erum bara að segja það að við áttum okkur á því að þetta er mikilvæg starfsemi og það sé eðlilegt að bæjarfélagið komi að henni. Ég held að það sé þörf á þessu, það hefur auðvitað verið mikið rætt hérna um dýrahald og kattahald sérstaklega og þessi fylgir bara ýmislegt sem þarf að halda utan um að hedni bæjarins. Þetta hefur verið ágætlga gert af þessum einstakling en kannski má sega að með stækkandi samfélagi þá verður verkefnið stærra og ég held að sá tími sé kominn að við þurfum að stíga þarna inn."
Þannig að með þessari bókun eruð þið að segja, já þetta er mikilvægt og við erum til í að skoða það að fara í að opna svona athvarf?
„Já, það er það sem við erum að segja."