Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Álag á BUGL aldrei verið jafn mikið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bráðainnlögnum á BUGL hefur fjölgað hratt síðustu tvö árin og álag á starfsfólk aldrei verið jafn mikið. Þetta kemur m.a. fram í úttekt Embættis landlæknis á BUGL. 

Tilefni úttektarinnar var skýrsla stýrihóps sem vaktar óbein áhrif COVID-19 á lýðheilsu. Fyrsta áfangaskýrslan kom út í maí síðastliðinn þar sem einblínt var á börn og ungt fólk. Kom þar meðal annars fram að bráðakomum á BUGL og bráðainnlögnum hefði fjölgað töluvert frá því að faraldurinn hófst. 

Mál hjá bráðateymi hafa undanfarin ár verið mun fleiri en tilvísanir í meðferð á göngudeild. Fjöldi nýrra mála hjá bráðateyminu hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár en árið 2021 varð skyndileg aukning. Ef borin eru saman árin 2019 og 2021 hefur nýjum málum hjá bráðateyminu fjölgað um 25%.

Biðtíminn sá sami þrátt fyrir styttri meðferðartíma 

Sá mikli fjöldi barna sem þarf á bráðaþjónustu að halda hefur þau áhrif að bið eftir meðferð á göngudeild lengist enn frekar. Í lok árs 2021 höfðu þau 136 börn sem biðu eftir meðferð á göngudeild BUGL beðið að meðaltali í 7,4 mánuði. Af þeim höfðu 95 börn beðið lengur en 3 mánuði. Biðtími hefur verið svipaður frá árinu 2017 þrátt fyrir að meðferðartími á göngudeildinni hafi styst umtalsvert. Við lok árs 2021 var meðalmeðferðartími þeirra sem skráðir voru í meðferð 20 mánuðir en var hins vegar 32 mánuðir við lok árs 2017.

Álagið stöðugt á starfsfólk og mikil starfsmannavelta

Í samtölum fulltrúa Embættis landlæknis við starfsfólk bráðateymisins kom fram að álagið hefði aldrei verið eins mikið og nú. Að sögn starfsmanna komu áður álagstoppar en nú væri álagið orðið stöðugt. Þá eru einnig vísbendingar um að alvarlegum málum hafi fjölgað og verkefni teymisins séu viðameiri og flóknari en áður. 

Þá hefur BUGL misst reynslumikið fagfólk síðustu ár sökum álags og launa. Starfsaðstæður hafa einnig haft neikvæð áhrif á mannauð og erfitt hefur verið að manna í allar stöður í bráðateyminu. 

Aukin eftirspurn á legudeild

Að mati stjórnenda virðist eftirspurn hafa aukist eftir allri geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og biðtími eftir allri þjónustu hefur lengst.

Innlögnum á legudeild hefur einnig fjölgað síðustu ár. Ef borin eru saman árin 2019 og 2021 hefur orðið 36% aukning og aukningin var 53% milli áranna 2020 og 2021. Mikil eftirspurn er eftir bráðainnlögnum á legudeild, sem flestar eru komnar til vegna alvarlegrar sjálfsskaða- eða sjálfsvígshættu.

Segir í úttektinni að það sé mat Embættis landlæknis að heildarumbætur geðheilbrigðisþjónustu barna séu víðtækari en svo að hægt sé að beina þeim til stjórnenda BUGL. Embættið muni því ræða við heilbrigðisráðuneytið varðandi frekari umbætur á kerfinu.