Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Með köldum, myrkum brag...

Mynd með færslu
 Mynd: Omotrack - One Of Two

Með köldum, myrkum brag...

04.03.2022 - 10:34

Höfundar

One of Two, önnur plata bræðratvíeykis að nafni Omotrack, er til muna heilsteyptari en frumraun sveitarinnar. „Styrkur plötunnar liggur í konseptinu og sterkri heildarmynd,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi, Gæðunum sé þó misskipt á milli laga.

Þeir bræður ólust upp í Eþíópíu, í litlu þorpi sem heitir Omo Rate og þaðan kom hugmyndin að nafninu Omotrack. Ég skrifaði um fyrstu plötu þeirra bræðra á þessum vettvangi fyrir næstum fimm árum. Mono & Bright kallast sá gripur og þar mátti nema heilnæman slatta af byrjunarþreifingum. „Óreyndir en efnilegir“ var fyrirsögnin og platan óþétt á margan hátt. Óþægilegt stílaflökt á köflum og þeir bræður einfaldlega ekki búnir að finna fótum sínum tónlistarleg forráð.

One of Two er til muna heilsteyptari gripur. Maður finnur að menn hafa vaxið og þroskast á þessum fimm árum. Vaxtarverkir að mestu á bak og burt, platan svalari, öruggari og pottþéttari einhvern veginn. Yfirbragð hennar er kalt og myrkt. Allt bright er farið. Lagatitlar eins og Introvert, Fragile og Darker blue segja sitt. Þetta er stíliserað, krómað og straumlínulagað tæknialdarpopp og línunni er haldið vel út í gegn. Í anda New Order, Depeche Mode jafnvel, og Vök og Warmland koma upp í hugann einnig. Söngröddin vélræn og leiðrétt eins og móðins er í dag. Þessi industrial-blær leikur um flestar smíðarnar hér, ef melódíur gera vart við sig eru þær angurværar, holar, fjarlægar. Keyrslan nær stundum upp í NIN-hæðir (Nine Inch Nails). Svona eins og ef þeir væru litlu bræður Trents Reznor.

Svona er hljómleg áferðin að minnsta kosti. Lögin sem slík eru hins vegar misvel heppnuð. Of mörg þeirra ná vart upp fyrir að vera þjónar heildarbragsins og hljómsins sem umlykur verkið. Á köflum fer eitt lag líka að minna á annað og allt rennur saman í einn, eintóna graut.

Styrkur plötunnar liggur í konseptinu og sterkri heildarmynd eins og ég hef lýst. Gallarnir eru helstir í misskiptum gæðum á milli einstakra laga, eins og ég hef líka lýst! En ég er meira og minna sáttur. Aðeins meiri yfirlega og hugmyndavinna með dúr, moll og hljómagang gæti mögulega skilað einhverju meistarastykki í nánustu framtíð. Hver veit?

Tengdar fréttir

Popptónlist

Omotrack – One Of Two

Tónlist

Hugmyndin kviknaði í flóðhestaferð

Tónlist

Óreyndir en efnilegir