Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Framboðsmál að skýrast í Reykjavík

Það skýrist að mestu í þessum mánuði hverjir leiða framboðslista fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Það stefnir í að konur verði í miklum meirihluta oddvita. 

Það eru tveir og hálfur mánuður í sveitarstjórnarkosningar og rúmur mánuður þar til framboðsfrestur rennur út. Það stefnir í að minnsta kosti níu framboð í Reykjavík.  Nú þegar hafa Samfylkingin og Píratar kynnt framboðslista sína. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir lista Samfylkingarinnar áfram og Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi leiðir hjá Pírötum.

Um næstu helgi verða tvö prófkjör í Reykjavík. Þá velja félagar í Vinstri grænum og Viðreisn á lista. Hjá VG keppast þrjár konur um fyrsta sætið. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi en einnig Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi. Hjá Viðreisn er oddvitaslagur á milli Þórdísar Jónu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra og Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur formanns borgarráðs og oddvita í síðustu kosningum. 

Framsóknarflokkurinn heldur kjördæmisþing í Reykjavík 10. mars, þar sem framboðslisti flokksins verður kynntur. Einar Þorsteinsson fyrrverandi fréttamaður hefur helst verið nefndur sem oddvitaefni flokksins. 

18. og 19. mars er komið að prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar verður kjörinn nýr oddviti því Eyþór Laxdal Arnalds gefur ekki kost á sér. Um fyrsta sætið keppast þær Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir varaborgarfulltrúi og Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. 

26. mars verður félagaprófkjör í Miðflokknum í Reykjavík. Þar verður kosið um þrjú efstu sætin. Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi gefur áfram kost á sér í 1. sætið. 

Flokkur fólksins hefur ekki gefið út hvenær framboðslisti verður kynntur. Þar verður ekki prófkjör og Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi vill fyrsta sætið áfram. Sömu sögu er að segja af Sósíalistaflokknum. Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi vill leiða framboðslista þeirra áfram. 

Það stefnir í að konur verði í miklum meirihluta í oddvitasætum í borgarstjórn Reykjavíkur. Í að minnsta kosti sjö flokkum af níu er útlit fyrir að konur verði oddvitar.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV