Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Neyðarástandi lýst yfir í Hong Kong

24.02.2022 - 05:30
A woman wearing a face mask walks past a bank's electronic board showing the Hong Kong share index in Hong Kong, Monday, Jan. 17, 2022. Shares were mixed in Asia on Monday after China reported that its economy expanded at an 8.1% annual pace in 2021, though growth slowed to half that level in the last quarter. (AP Photo/Kin Cheung)
 Mynd: AP
Neyðarlög tóku gildi í Hong Kong nú í morgun sem heimila læknum og hjúkrunarfólki frá meginlandinu að aðstoða í baráttunni við gríðarlega útbreiðslu COVID-19. Hingað til hefur heilbrigðisstarfsfólki af meginlandinu verið meinað að starfa í Hong Kong.

Ástandið hefur aldrei verið verra í þéttbýlli borginni en þúsundir nýrra tilfella greinast dag hvern. Sjúkrahús ráða ekki við ástandið og tilraunir til að einangra sýkta hafa gengið illa.

Hingað til hafa yfirvöld í borginni fetað í fótspor stjórnvalda í Kína með beitingu harðra sóttvarnartakmarkana við að halda aftur af útbreiðslu veirunnar.

Þar til omíkron-afbrigðið kom fram á sjónarsviðið gekk sú aðferð vel. Allar varnir brustu eftir að það nam land í Hong Kong sem hefur leitt af sér háværar hjálparbeiðni stjórnvalda í borginni til yfirvalda á meginlandinu.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar kemur fram að með því að kalla til sérfræðinga frá Kína sé vonast til að takist að koma böndum yfir þessa fimmtu og verstu bylgju kórónuveirufaraldursins.  
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV