Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Dauðsföll af öðrum toga en í upphafi faraldurs

17.02.2022 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Mikill munur er á dauðsföllum nú, og fyrr í covid-faraldrinum segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Áður hafi fólk veikst mjög alvarlega af covid og látist en nú tengist dauðsföllin undirliggjandi sjúkdómum og þáttur covid oft óljós.

Frá því fyrsta covid-tilfellið greindist hérlendis 28. febrúar 2020 hafa 58 dauðsföll verið skráð tengd faraldrinum. Í byrjun árs voru tilkynningar um andlát tíðari en verið hafði áður í faraldrinum, þótt svo talað væri um vægari áhrif sjúkdómsins og þótti sumum skjóta skökku við. Framan af faraldri var greint frá því að fólk hefði látist vegna covid. Nú er talað um andlát fólks með covid.

Þórólfur segir töluverðan mun á dauðsföllum nú og á fyrri stigum. „Í upphafi var þetta bein afleiðing af covid-smitinu, nokkuð klárt. Fólk var að veikjast mjög alvarlega, fékk alvarlega lungnasýkingu og aðrar sýkingar sem voru orsakaðar af covid. Nú erum við að sjá meira af andlátum sem tengjast undirliggjandi sjúkdómum, þar sem fólk þolir verr covid-smitið. Oft er erfitt að sjá nákvæmlega hvaða þátt covid á í andlátinu þannig að við erum aðeins að horfa upp á öðruvísi mynd núna.“

Þórólfur segir að útbreidd bólusetning og nýtt afbrigði sem veldur vægari einkennum skýri breytinguna. „Það er klárt að bólusetningin er að hjálpa mikið til, þannig að fólk er ekki að fá eins alvarleg veikindi almennt séð. Ég held að við getum þakkað það bólusetningunni og afbrigðinu sem nú er allsráðandi.“