Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Smitum fækkar á Grænlandi nema í tveimur bæjum

12.02.2022 - 01:10
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað talsvert í Tasiilaq stærsta þéttbýlisstaðnum á Austur-Grænlandi en annars staðar í landinu hefur smitum fækkað nokkuð. Öllum sóttvarnaraðgerðum var aflétt í landinu um miðja vikuna.

Frá því er greint á vef KNR að um það bil þriðjungur kennara og annars starfsfólk grunnskólans í bænum sé frá störfum vegna veikinda en um það bil 60% sýna sem tekin voru í bænum í fyrradag reyndust jákvæð.

Svipað er uppi á teningnum í bænum Paamiut á vesturströndinni og því eru nemendur og kennarar skólanna beðnir að blanda ekki geði milli bekkja eða árganga.

Annars staðar í landinu er hlutfall smitaðra við greiningu komið niður í 39% en var 60% að meðaltali í janúar. Það segir þó ekki alla söguna því einungis fólk með mikil einkenni hefur nú aðgang að PCR-prófum.

Öðrum er ráðlagt að halda sig heima og bíða uns þeim er batnað. Sú ákvörðun var tekin vegna mikils álags á skimunarstöðvar og sjúkrahús.

Alls liggja tíu á sjúkrahúsi með eða vegna COVID-19 þar af einn á gjörgæsludeild í Nuuk en 130 hafa þurft á innlögn að halda frá því að faraldurinn skall á.

Sjö hafa látist af völdum sjúkdómsins. Nú hafa um 70% landsmanna þegið fyrstu eða aðra bólusetningu gegn COVID-19