
Segir ekki tímabært að afnema einangrun
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, spurði heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun hvort það væri rétt að reglur um sóttkví og einangrun yrðu felldar úr gildi á morgun. Willum Þór svaraði því til að í ljósi mikillar útbreiðslu með tilheyrandi vandkvæðum á heilbrigðisstofnunum sé það hans mat að ekki sé tímabært að breyta reglum um einangrun svo skömmu eftir síðustu breytingu. Reglum um einangrun var breytt á mánudag þar sem einangrun var stytt úr sjö dögum í fimm.
Heilbrigðisráðherra bætti því jafnframt við að hans mat væri líka að halda í grímur og halda fjarlægð á meðan farið væri í afléttingar.
Orð ráðherra ríma við það sem sóttvarnalæknir sagði við fréttastofu í morgun. Hann skilaði ráðherra minnisblaði í morgun, og staðfesti í samtali við fréttastofu að meðal tillagna hans nú væri ekki að afnema reglur um einangrun. Sú hugmynd var uppi í öðru skrefi afléttingaáætlunar stjórnvalda. Til stóð að taka annað skrefið 24. febrúar, en Willum Þór boðaði fyrr í vikunni að afléttingarnar á morgun verði byggðar á því.