Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tveir jarðskjálftar yfir þrír að stærð nærri Grímsey

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Á þriðja tímanum í nótt mældust tveir jarðskjálftar yfir þrír að stærð norður af landinu. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir skjálftana hluta jarðskorpuhreyfinga á svæðinu.

Fyrri skjálftinn mældist klukkan 2:35 og mældist 3,3 að stærð og sá síðari fimm mínútum síðar sem reyndist af stærðinni 3,5. Upptök skjálftanna eru um ellefu kílómetra suðsuðvestur af Grímsey.

Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni hafa nokkrir minni eftirskjálftar mælst í kjölfarið en engar tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir hafi fundist.

Salóme segir skjálftana hluta af jarðskorpuhreyfingum fyrir norðan. Þarna eru tvö skjálftabelti, Húsavíkur- Flateyjarmisgengið og Grímseyjarbrotabeltið og milli þeirra eru þversprungur að sögn Salóme Jórunnar. Á því svæði hafi skjálftarnir orðið. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands greinir Bryndís Brandsdóttir jarðeðlisfræðingur frá því að ástæðu mikillar skjálftavirkni nærri Grímsey megi rekja til nálægðar hennar við Tjörnesbrotabeltið sem sé annað tveggja þverbrotabelta hérlendis.

Það segir Bryndís ofið úr flóknu neti misgengja en þrálát skjálftavirkni hafi einkennt Tjörnesbrotabeltið frá upphafi fastra jarðskjálftamælinga.