„Hættu, opnaðu kassann og hleyptu mér út“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hættu, opnaðu kassann og hleyptu mér út“

29.01.2022 - 11:00

Höfundar

Listakonan Sunneva Ása Weisshappel notar gjörninga til að vinna sig í gegnum erfiðar aðstæður. Hún gerði til að mynda skúlptúra úr kindablóði til að sigrast á ofsakvíða og drekkti sér í 200 kílóum af sykri til að vinna bug á innilokunarkennd.

Sunneva Ása nálgast viðfangsefnin kyngervi og menningu frá sjónarhorni listsköpunar. Hún hefur lært að takast á við vandamál sín með listgjörningum og um leið fundið sinn sannleika og rödd. Í haust hóf hún meistaranám í myndlist við Goldsmiths háskólann í London. Samhliða því vinnur hún að einkasýningu í einu virtasta galleríi heims, Robilant+Voena.  

„Það var ekki staður sem ég vildi vera föst á“ 

 „Ég er rétt að byrja þetta ferðalag,“ segir Sunneva Ása í samtali við Hlédísi Maren Guðmundsdóttur í Lestinni á Rás 1. „Ég hlakka til þegar ég get færst miklu nær einhverjum kjarna og stríði, einhverjum átökum. En maður þarf að fara í gegnum ákveðin lög fyrst, nær sannleikanum innra með sér. En hann breytist á hverjum degi því það er allt á hreyfingu.“  

„Það kom aldrei til greina að verða neitt annað en listakona,“ segir Sunneva Ása sem segist hafa haft mjög sterka rödd frá unga aldri, alltaf verið að tala og búa til leikrit. „Fyrst er maður kannski að bara að teikna og búa eitthvað til en veit ekki alveg af hverju. Af hverju eyði ég öllum deginum í að búa til teikningar,“ spyr hún. „Svo fer maður að skoða hvað þetta er og hvað það er að segja.“ Hún segist alltaf hafa haft áhuga á pólitík, langað að breyta heiminum og fundið ríka þörf innra með sér til að gera eitthvað gott eða benda á hvað mætti gera betur.  

Í BA-námi mátaði sig við mjög pólitískt listafólk. „Þá fer ég að búa til gjörninga eða list út frá einhverri hugmynd sem mér fannst skipta máli. Þá fer ég að vinna innan einhvers ramma sem mig langaði til að skilgreina mig innan,“ segir hún. „En hvar er sannleikurinn? Hvar er heiðarleikinn?“  Ferðalag hennar tók nýja stefnu og hún fór að spyrja sig í hvaða stöðu hún væri til að segja fólki hvað væri satt og hvernig það ætti að haga sér. „Það var ekki staður sem ég vildi vera föst á.“  

„Maður heimsækir ólíkar leiðir að tjáningu, mátar sig við þær. Þetta er eins og fara inn í búð og máta öll fötin. Þú passar ekkert í þau öll en svo finnurðu eitthvað sem smellpassar.“ Hún segir þetta hafa verið sitt ferðalag á milli tvítugs og þrítugs, að máta sig og skoða hvar henni fyndist hún hafa eitthvað að segja.  

Erfitt að fylgja ekki tískustraumunum 

„Það er mjög erfitt að taka ákvörðun og fara ekki inn í eitthvað sem selur, er í tísku eða þykir fínt.“ Hún segist hafa prófað að fylgja straumnum en leið eins og leikskólabarni í menntaskóla, hún gat ekki tjáð sig. „Ég hef engan áhuga á því, að taka þátt í því.“ Af og til stígi hún þó alltaf inn á einhver svæði sem sitji eftir.  

Sunnevu Ása finnst gott þegar list hennar er opin og laus við predikun. „Þegar fólk getur komið að henni og túlkað sinn eigin raunveruleika út frá einhverju sem það sér.“ Hægt og rólega fái hún hugmynd um hvernig henni finnst að list eigi að vera og hvernig list hún vill sjálf skapa.  

Vaknaði hrædd á hverjum degi  

Snemma á þrítugsaldri varð Sunneva fyrir heilsufarslegu áfalli og gekk í gegnum tímabil ofsakvíða sem hún vann bug á í gegnum listina. „Ég hafði aldrei verið hrædd á ævinni,“ segir Sunneva sem hafði ferðast um allan heiminn ein síns liðs, farið á puttanum, búið í kommúnum og alltaf komið sér út úr hættulegum aðstæðum. „Að vera tuttugu og tveggja ára og upplifa hræðslu á hverjum á einasta degi þegar maður vaknar, þú ert hræddur við hjartað í þér. Þetta var eins og pólskipti í karakter. Ég þekkti mig ekki í speglinum.“  

„Þá kemur listin sem eitthvað brjálæðslegt verkfæri til að takast á við heiminn og raunveruleikann.“ Þarna hafi hún áttað sig á að allt sem hún hafði verið að gera, heimsækja aðra kima, hafi ekki verið röddin hennar. Hún hafi áttað sig á að hugræna atferlismeðferðin sem hún stundaði væri ekki að fara að hjálpa henni, heldur þyrfti hún að framkvæma það sem hún óttaðist í raunveruleikanum. Upphófst þá hrina tuttugu gjörninga sem hún kallaði Snertu mig og vann með kindablóð og -fitu, bjó til málverk og skúlptúra. Hún mátti nefnilega ekki sjá blóð án þess að falla í yfirlið og fékk kvíðakast yfir öllu sem tengdist dauðanum. „Ég er að framkalla kvíðaköst inni í þessu, með því að setja mig fremst í víglínu og fara í gegnum eitthvað tráma,“ segir hún. „Í þessu ferli bæði lækna ég mig af ofsakvíða, hef ekki fengið ofsakvíðakast síðan, og ég uppgötvaði eitthvað tungumál í listinni. Ég upplifði minn sannleika.“ 

Drekkti sér í 200 kílóum af sykri 

Eftir þetta hefur Sunneva oft unnið með það að setja sjálfa sig í erfiðar aðstæður og komast í gegnum þær. Hún nefnir gjörninginn Sugar Wounds þar sem hún var lokuð inni í búri úr plexigleri og vinkonur hennar helltu yfir hana 200 kílóum af sykri. Þetta gerði hún vegna þess að hún var að glíma við innilokunarkennd á sama tíma og hún var að skoða kvennamenningu. Hana hafði nefnilega alltaf dreymt um að ferðast um allan heim vegna vinnu sinnar, búa á hótelherbergjum og taka lestir. Þegar sú draumsýn rættist fann hún aftur á móti til meiri einmanaleika en nokkru sinni fyrr. Hugmyndin að gjörningnum var að drukkna í sykri, nokkuð sem gæti virst æðislegt, og um leið að sýna konur styðja hver aðra í gegnum einhverja manndómsvígslu eins og ljósmóðir sem heldur í hönd konu sem er að fæða barn, eina erfiðustu lífsreynslu í heimi þar sem konan þarf á sama tíma að gefast algjörlega upp gagnvart náttúrunni.  

Vinkonur Sunnevu helltu yfir hana sykrinum og hættu þegar hann snerti á henni nefið, fyrir framan hundrað manns. Í miðjum gjörningnum fékk hún þó kvíðakast og var það í fyrsta sinn sem það kom fyrir hana meðan á gjörningi stóð. Besta vinkona Sunnevu var ein þeirra sem helltu sykrinum. „Ég stoppa og sný mér að henni og segi: Hættu, opnaðu kassann og hleyptu mér út.“ Vinkonan neitaði að gera eins og hún sagði. „Sunneva, þú ert ekki að fara út úr þessu, ég er ekki að fara að hleypa þér út,“ sagði hún. Sykurinn þyrlaðist svo mikið að hún náði ekki andanum svo vinkonurnar hættu að hella á meðan hún náði tökum á andardrættinum og hjartslættinum. Á meðan róaði hún niður kvíðakastið sem var að hellast yfir hana.  

„Ég tók stjórn á sjálfri mér inni í aðstæðum og svo héldu þær áfram. Ég er mjög fegin að hún bannaði mér að fara út. En þarna ætlaði ég að bugast. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef algjörlega bugast inni í aðstæðum en þarna var besta vinkona mín sem hjálpaði mér að komast í gegnum þetta.“ 

Með þessari gjörningahrinu hafi Sunneva fundið sína sterkustu rödd. Hún segist telja að erfiðasta vegferðin fyrir listafólk sé að finna hvar rödd þess liggur og halda ekki framhjá henni. „Ég er aldrei að fara að búa til ævistarf út frá því hverju einhver annar er góður í,“ segir hún og segist einungis geta skoðað tilvist manneskjunnar út frá sjálfri sér, því sem hún fékk í vöggugjöf.  

Rætt var við Sunnevu Ásu Weisshappel í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Dreymir um að búa í Sovétríkjunum í gamla daga

Myndlist

Sykursár og stórkostleg ástarmál