Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Flutningabílstjórar mótmæla bólusetningarskyldu

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Mikill fjöldi flutningabílstjóra streymdu til Ottawa höfuðborg Kanada í gær til að mótmæla því að bólusetningar sé krafist hyggist þeir aka yfir landamærin yfir til Bandaríkjanna.

Bílstjórarnir koma hvaðanæva að úr landinu og ætla að hafast við á þinghúshæðinni í miðborg Ottawa um helgina. 

Aðgerðir bílstjóranna, sem þeir hafa nefnt Frelsislestina, hafa vakið mikila athygli en stjórnvöld beggja ríkja ákváðu um miðjan janúar að skylda vörubílstjóra til bólusetningar.

Bílstjórarnir hafa fengið stuðningsyfirlýsingar víða að, til að mynda frá auðkýfingnum Elon Musk sem hrósaði framtaki þeirra á Twitter. Samtök kanadískra flutningabílstjóra hafa lýst megnri óánægju með framtak bílstjóranna.

Peter Sloly, lögreglustjóri í Ottawa kveðst ekki vita hvert umfangið verður en býst við umferðaröngþveiti. Hann segir skipuleggjendur lofa því að mótmælin verði friðsamleg en óttast að einhverjir reyni að lauma sér inn í hópinn til að ýta undir illsku og efna til ofbeldis.

Fulltrúar ýmissa öfgahópa hafa látið ógnandi athugasemdir falla á samfélagsmiðlum. Einhverjir hafa einnig hvatt til þess að farið verði að fordæmi þeirra sem réðust inn í þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna 6. janúar í fyrra. 

Margir verslunareigendur hafa ákveðið að loka um helgina. Justin Trudeau forsætisráðherra er í einangrun vegna útsetningar fyrir kórónuveirusmiti en hann varði bólusetningaskylduna með þeim orðum að 90% allra vörubílstjóra væru þegar bólusettir. 

Forsætisráðherrann segir skoðanir flutningabílstjóranna alls ekki endurspegla hugarfar meirihluta Kanadamanna. Erin O'Toole, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, kveðst ætla að hitta einhverja úr hópi bílstjóranna um helgina.