Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Erdogan lætur hagstofustjóra taka pokann sinn

29.01.2022 - 03:00
epa06406876 Turkey's President Tayyip Erdogan speaks during a press conference with Tunisia's President Beji Caid Essebsi ( not in picture ) at the Presidential Carthage Palace in Tunis, Tunisia, 27 December 2017.  EPA-EFE/MOHAMED MESSARA
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ákvað í dag að segja forstjóra hagstofu landsins upp störfum. Meginástæðan virðist vera óánægja með hagtölur. Einnig stokkaði forsetinn upp í ríkisstjórn landsins.

Sait Erdal Dincer, forstjóri hagstofunnar, mátti þola mikið ámæli fyrr í janúar þegar birtar voru tölur sem sýndu ríflega 36% verðbólgu í landinu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar fullyrtu að þar birtist stórkostlegt vanmat á stöðu efnahagsmála, verðbólga væri hið minnsta tvöfalt meiri.

Erdogan gagnrýndi stofnunina hinsvegar harðlega fyrir að blása upp efnahagsörðugleika í landinu. Forsetinn útskýrði ekki ákvörðun sína að skipa Erhan Cetinkaya sem hagstofustjóra en hann var faraformaður bankaeftirlits Tyrklands.

Erdogan fékk sömuleiðis Bekir Bozdag, varaforsætisráðherra til að taka við embætti dómsmálaráðherra í stað Abdulhamit Gul. Hann tilkynnti afsögn sína í dag með orðum um þakklæti fyrir að orðið hafi verið við þeirri beiðni hans.