Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nýr gígur eftir árekstur gæti aukið þekkingu á tunglinu

28.01.2022 - 01:10
Mynd með færslu
 Mynd: Bill Anders - NASA
Bandaríska geimferðastofnunin NASA hyggst kortleggja og rannsaka gíginn sem myndast þegar hluti eldflaugar skellur á yfirborði tunglsins snemma í mars.

SpaceX geimferðafyrirtækið smíðaði flaugina sem var notuð til að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu árið 2015. Síðan þá hefur fyrsta þrep hennar svifið á óreglulegu hringsóli um himingeiminn.

Það eru algeng örlög þess háttar tækjabúnaðar. Reiknað hefur verið út að leifar eldflaugarinnar skelli á skuggahlið tunglsins 4. mars næstkomandi.

Atburðurinn verður ekki sýnilegur berum augum frá jörðu né verður Lunar Reconnaissance Orbiter, ómannað tunglkönnunarfar NASA sem hringsólar tunglið, þannig staðsett að það greini áreksturinn.

Hins vegar er ætlunin að farið myndi gíginn sem myndast þannig að hægt verði að bera saman myndir teknar fyrir og eftir atvikið. Það gæti þó orðið þrautin þyngri að finna gíginn en sérfræðingar NASA telja að það geti tekið nokkrar vikur - jafnvel mánuði.

Hins vegar telja vísindamenn að rannsóknir á gígnum og því efni sem rótast upp við áreksturinn geti enn aukið skilning manna á tunglinu.