Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nærri 3000 leiguíbúðir byggðar fyrir tekjulága

28.01.2022 - 10:04
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd:
Tæplega þrjúþúsund leiguíbúðir hafa verið byggðar eða keyptar frá árinu 2016 fyrir tekjulágt fólk með stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Samtals hafa ríki og sveitarfélög lagt fram átján milljarða króna til slíkra verkefna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auglýsir fljótlega eftir umsóknum í fyrri úthlutun ársins um stofnframlög frá hinu opinbera í því skyni að fjölga leiguíbúðum fyrir tekjulágt fólk.

Stofnframlögum hefur verið úthlutað frá árinu 2016, en með þeim á að stuðla að því að byggt verði hagkvæmt leiguhúsnæði eða keypt tilbúið húsnæði fyrir tekjulágt fólk þar sem miðað er við að leigan fari ekki umfram fjórðung tekna viðkomandi. Alls nemur stofnframlagið 30% af áætluðum byggingarkostnaði og koma 18% frá ríkinu en 12% frá viðkomandi sveitarfélagi. Framlagið er veitt sem eiginfjárframlag til  húsnæðissjálfseignarstofnana og sveitarfélaga eða lögaðila í þeirra eigu. Krafa er gerð um að byggt sé á hagkvæman hátt og viðmið um hámarksstærð frá 50 fermetrum upp í 110 fermetra, eftir herbergjafjölda, en ef húsnæðið er fyrir fólk með fötlun eru íbúðirnar stærri.

Alls hefur verið úthlutað stofnframlagi vegna 2.981 íbúðar og eru 1.144 þegar komnar í notkun. Ríki og sveitarfélög hafa lagt 18 milljarða króna í verkefnið, en alls nemur heildarkostnaður tæpum 93 milljörðum króna.  Langflestar íbúðirnar eru á höfuðborgarsvæðinu eða 2.525 og 456 á landsbyggðinni, þá flestar á Vesturlandi og á Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Lungi þessara íbúða er í Reykjavík eða 2.123. Búist er við að niðurstaða úr fyrri úthlutun stofnframlaga liggi fyrir í júní.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV