Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lék auðveldlega hættulegan rokkara

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir / Björn Stefáns.

Lék auðveldlega hættulegan rokkara

28.01.2022 - 17:00

Höfundar

„Við vorum svolítið mikið á milli tannanna á fólki,“ segir leikarinn Björn Stefánsson sem rifjar upp þann tíma þegar fólk óttaðist hann og gengið í hljómsveitinni Mínus. Í kvöld frumsýnir hann skemmtiþáttin Glaumbæ á Stöð 2 og fær til sín góða gesti.

Stórleikarinn Björn Stefánsson, sem jafnan er kallaður Bjössi í Mínus, frumsýnir í kvöld nýja skemmtiþætti á Stöð 2 sem nefnast Glaumbær. Þar verður gleðin við völd eins og nafnið gefur til kynna en þættirnir hverfast um eitt ákveðið orð sem verður svo allsráðandi í þættinum. Bjössi er auðvitað búinn að vekja stormandi lukku í Bubbasöngleiknum 9 líf undanfarið og er því með ansi mörg járn í eldinum.

Ætlar að keyra áfram stemninguna 

„Þetta var mjög snöggt að gerast,“ segir Björn. Hringt hafi verið í hann fyrir tveimur mánuðum og spurt hvort hann væri til í að vera í sjónvarpi. Hann tók sér sólarhring til umhugsunar og ákvað svo að slá til. Eftir það hafi boltinn rúllað hratt, tökur byrjað og frumsýning í kvöld. „Þetta er skemmtiþáttur, söngþáttur, sem ég er að stjórna.“ 

Hann segist ekki hafa viljað fara hefðbundna leið þegar kæmi að Glaumbæ. Hver þáttur hefur sitt þema og lítið verður um viðtöl. Í kvöld sé þemað djamm og fær hann til sín góða gesti til að rannsaka það. „Við reynum að spila sem mest músík, því það er langskemmtilegast. Að halda stemningunni gangandi. En ef það er gluggi fyrir spjall og ef fólk er til þá er ég til í það,“ segir Björn en hann vill forða sér frá því að vera með viðtalsþátt. „Þetta er bara nákvæmlega eins og mig langar að horfa á. Ég fæ að fara í búninga og klæða hljómsveitina upp.“

„Ég kynni ekki fólkið, við erum að djamma og viðkomandi kemur bara inn í lagið ókynntur. Mér finnst það vera góð kynningaraðferð,“ segir Björn. „Ég er með marga þjóðþekkta einstaklinga. Fólk veit alveg hver þau eru.“ Hann vill ekki gefa mikið upp um hverjir gestir kvöldsins verða en getur þó sagt að einn þeirra byrji á K og endi á K. 

Þekkir vel að vera hættulegur rokk- og rólari

Björn segist vera ánægður, að á meðan leikhúsið sé lokað sé hann með sjónvarpsþátt. Hann leikur nefnilega Utangarðs-Bubba í stórsýningunni 9 líf. Að sögn hafi það verið rosalega eðlilegt að bregða sér í þetta hlutverk því hann og Bubbi eigi margt sameiginlegt. Þeir hafi þekkst aðeins áður en hann tók hlutverkið að sér og eigi sér svipaðar sögur, þegar Bubbi segir frá tengir Björn og öfugt. „Að vera í svona hljómsveit er svo mikið bræðralag,“ segir Björn. „Fólk heldur oft að þú getir bara leikið rokk og ról, en þú þarft svolítið að lifa það,“ segir hann og bætir við að það þurfi að vera svolítið hættulegt. „Þannig að stökkva inn í Utangarðs-Bubba var svolítið náttúrulegt fyrir mig.“

Hann rifjar upp að fólk hafi verið frekar hrætt við þá félaga í Mínus á sínum tíma, við þetta gengi sem þeir voru. „Það var ekkert sem við ákváðum, við ætluðum bara að gera þetta,“ segir Björn og á þá við rokkið og rólið. Hann segir frá því þegar eitt skiptið átti að bösta þá félaga þar sem þeir biðu eftir giggi í litlum skúr sem þeir komust varla inn í. Hurðinni hafi verið sparkað upp og inn komu fimm lögregluþjónar, þeir litu þá allir upp og spurðu: Hvað? 

„Við vorum svolítið mikið á milli tannanna á fólki, en innst inni vorum við bara góðir strákar. En við vorum gengi,“ segir hann og telur það vera ástæðu þess að þeir Bubbi tengdu svo mikið yfir þessum sýningum. „Því við þekkjum þetta báðir.“

Rætt var við Björn Stefánsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Við vorum nokkuð prúðir strákar“

Popptónlist

Afgan í Vikunni