Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Jóhannes Tryggvi sakfelldur í annað sinn

28.01.2022 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi í hádeginu Jóhannes Tryggva Sveinbjörnsson fyrir kynferðisbrot gegn konu á nuddstofu sinni fyrir um áratug. Honum var gerður 12 mánaða hegningarauki sem bætist við það 6 ára fangelsi sem Landsréttur dæmdi hann í fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum í byrjun síðasta árs.

Þetta staðfestir Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari í málinu, við fréttastofu. Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, lýsti því strax yfir að dómnum yrði áfrýjað til Landsréttar.

Mbl.is greindi fyrst frá.

Konan var er ein af ellefu sem kærði Jóhannes  til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur árum en héraðssaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru á sínum tíma. 

Hún kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögreglu að rannsaka málið að nýju. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru í maí.

Réttarhaldið í málinu var opið sem er einsdæmi þegar kynferðisbrot eru annars vegar. Konan sagði í skýrslutöku sinni að hún hefði talið að hún væri í höndum sérfræðings þegar hún leitaði til hans. „Ég trúði því að ég væri að fá aðstoð fagaðila við meiðslum í bakinu.“

Jóhannes nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki um sakarefnið í réttarhaldinu en lýsti því yfir að hann hefði ekki komið við brjóst eða kynfæri konunnar á óviðeigandi hátt.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV