Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Andstæðingur dagsins: Noregur

epa09709168 Sander Sagosen of Norway (L) in action against Max Darj of Sweden (R) during the Men's European Handball Championship main round match between Sweden and Norway in Bratislava, Slovakia, 25 January 2022.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Andstæðingur dagsins: Noregur

28.01.2022 - 07:00
Karlalandsliðið í handbolta mætir Noregi í leik um fimmta sæti EM í Ungverjalandi í dag. Norðmenn hafa unnið fimm síðustu leiki liðanna.

Noregur hefur verið á miklu flugi með karlalið sitt síðustu ár. Eftir heldur mögur ár hefur liðið náð sínum besta árangri undir stjórn Christian Berge. Liðið er þó í sárum nú eftir að hafa misst af sæti í undanúrslitum eftir tap gegn Svíþjóð í lokaleik milliriðilsins.

Löng saga gegn Noregi

Ísland og Noregur mætast í dag í 92. sinn í landsleik karla. Ísland hefur í gegnum tíðina haft betur. Ísland hefur unnið 42 leiki á móti 32 sigrum hjá Noregi. 15 sinnum hefur orðið jafntefli. 

Á síðustu árum hafa Norðmenn hins vegar haft betur. Þeir hafa unnið fimm síðustu leiki liðanna. Þrír þeirra voru vináttuleikir en á síðustu tveimur stórmótum hafa Norðmenn haft betur. Þeir unnu 35-33 á HM í Egyptalandi í fyrra og 31-28 á EM 2020 í Svíþjóð.

Noregur hefur ekki náð að landa stórum titli í karlaflokki. Þeir komust þó í úrslit HM 2017 og 2019 en urðu að sætta sig við silfrið. 2020 náðu þeir svo í brons á EM. 

Sander Sagosen stjarnan

Stærsta stjarnan í liði Noregs er án nokkurs vafa Sander Sagosen. Hann spilar nú með Kiel í Þýskalandi en var áður hjá PSG í Frakklandi og Álaborg í Danmörku. Á næsta ári mun hann leika með Kolstad í Noregi, hins nýja ofurliðs sem er í smíðum. Þar verður hann samherji Janusar Daðasonar og Sigvalda Björns Guðjónssonar.

Sagosen er 26 ára og er fastamaður í úrvalsliðum stórmóta. Hann var í úrvalsliði EM 2016, 2018 og 2020 og HM 2017 og 2019. Hann var líka markakóngur EM 2020 með 65 mörk. 

Norska liðið er þó meira en bara Sagosen. Leikstjórnandinn Christian O'Sullivan er þrautreyndur leikmaður. Hann er samherji Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar hjá Magdeburg. Hornamennirnir Sebastian Barthold og Kristian Björnsen eru svo báðir fyrsta flokks. Á mótinu í ár hefur Erik Thorsteinsen Toft skotist í sviðsljósið. Hann hefur látið til sín taka í síðustu leikjum úr vinstri skyttunni.

Nokkra sterka leikmenn vantar þó í norska liðið. Fyrstu Covid-19 smitin slógu norska liðið á miðvikudag. Þá var tilkynnt að markvörðurinn Tobias Bergerud, samherji Viktors Gísla Kristjánssonar í GOG, og Magnus Gullerud, línumaður Magdeburg, væru sýktir og úr leik. Fyrir voru þeir Magnus Röd og Göran Johannessen úr leik vegna meiðsla, en báðir spila með Flensburg í Þýskalandi.

Leikur Íslands og Noregs er í dag klukkan 14:30, í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2. Upphitun í EM-stofunni hefst á RÚV klukkan 14.