Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Búist við að hluti eldflaugar skelli á tunglinu í mars

27.01.2022 - 00:47
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hluti úr eldflaug sem SpaceX, fyrirtæki Elons Musk, skaut á loft fyrir sjö árum skellur innan skamms á yfirborði tunglsins. Eldflaugin var notuð til að koma á loft gervihnetti á vegum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA.

Fyrsta þrep eldflaugarinnar, sem vegur fjögur tonn, hefur síðan verið á óreglulegri sporbraut, að sögn stjörnufræðingsins Bills Gray sem reiknaði út árekstrarstefnu flaugarinnar gagnvart tunglinu.

Hann segir að hún skelli á tunglinu 4. mars á yfir níu þúsund kílómetra hraða.

Gray kveðst í samtali við AFP-fréttaveituna hafa fylgst með manngerðu geimrusli um fimmtán ára skeið og nú sé komið að fyrstu lendingu slíks hlutar á tunglinu.

Stjörnufræðingurinn Jonathan McDowell er ekki alveg á sama máli og telur hugsanlegt að árekstrar geimrusls við tunglið kunni hreinlega að hafa farið fram hjá fólki.

Hann segir að minnst fimmtíu hlutir hafi verið skildir eftir á sporbaug jarðar á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar en lítið hafi verið fylgst með þeim.

Ekki sé útilokað að einhverjir þeirra hafi lent á tunglinu enda sé eitthvað af þeim hreinlega horfið.

Árekstur eldflaugahlutans við tunglið verður ekki sýnilegur berum augum frá jörðu en hann skilur eftir sig gíg sem vísindamenn geta rannsakað með aðstoð gervihnatta.