Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bræðurnir: Yfirlæti og vanþekking í rannsókn saksóknara

27.01.2022 - 19:13
Mynd með færslu
Einar Ágústsson. Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bræðurnir Ágúst Einar og Einar Ágústssynir, sem sæta ákæru fyrir fjársvik í tengslum við rekstur trúfélag Zúista, segja nokkuð hafa borið á vanþekkingu hjá rannsakendum héraðssaksóknara á málefnum trúfélagsins. Það hafi verið afgreitt eins og það hefði að einhverju leyti verið dregið upp úr hatti þeirra.

Þetta kemur fram í ítarlegum greinargerðum sem lögmenn bræðranna skiluðu í síðustu viku.  Þeir neituðu alfarið sök þegar ákæran var þingfest og ráðgert er að aðalmeðferð í málinu fari fram í lok febrúar.

Bræðurnir eru í ákærunni sagðir hafa styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Á þeim grunni hafi félagið fengið tæpar 85 milljónir frá október 2017 til janúar 2019.

Bræðurnir voru handteknir vegna málsins í byrjun maí fyrir þremur árum og var farið í húsleit á heimilum þeirra. Í greinargerðum sínum til dómstólsins rekja bræðurnir helstu málavexti og gera margvíslegar athugasemdir við málatilbúnað ákæruvaldsins.   

Segir málefni trúfélagsins hafa verið afgreidd sem uppspuni

Ágúst Arnar segir í greinargerð sinni að greina hafi mátt nokkra vanþekkingu á málefnum trúfélagsins í skýrslutökum hjá héraðssaksóknara. 

Það kunni ef til vill að hafa markað þessu máli ákveðinn farveg að starfsmenn embættisins hafi afgreitt málefnið sem einhvers konar uppspuna eða að það hafi verið dregið upp úr hatti þeirra bræðra. 

Rannsakendur hafi lítið kynnt sér bakgrunn trúarinnar og fyrir hvað hún standi og borið hafi á nokkru yfirlæti hvað það varði. Ágúst segir jafnframt að gjalda verði varhug við tilhneigingum ákæruvaldsins til að ófrægja starfsemi Zúista og þeirrar vegferðar sem þeir bræður hafi valið sér með rekstri félagsins. 

Fann endurgreiðslum stað í helgisiðum Zúista

Ágúst rekur sögu Zúista sem hann segir ein elstu trúarbrögð heims og eigi sér djúpar sögulegar og menningarlegar rætur.  Hann minnir á að þegar hann hafi verið viðurkenndur sem forstöðumaður trúfélagsins hafi bræðurnir ákveðið að efna það loforð sem gefið hafði verið; að endurgreiða trúfélagsgjöld.

Þessum endurgreiðslum hafi verið fundinn staður í helgisiðum Zúista. Þeir hafi til forna með verið elsta skattkerfi sem skrár séu til um og kallist Bala. Zúista hafi gert sér grein fyrir hættunni sem stafaði af mikilli skuldasöfnun í hagkerfum og því hafi allar skuldir verið reglulega felldar niður og byrjað upp á nýtt.  Þessi siður kallist Amargi og séu endurgreiðslur sóknargjalda hluti af þeirri hefð. 

Íslenska ríkið ekki orðið fyrir tjóni

Einar bróðir hans tekur í svipaðan streng í greinargerð sinni. Hann segir verulega hafi gætt að vanþekkingu héraðssaksóknara á trúarkenningum Zúista eins og oft hafi verið ljóst í skýrslutökum.   Hann tekur skýrt fram að athafnir hans hafi miðað að því að treysta í sessi trúfélagið og tryggja að það starfaði áfram í samræmi við hugmyndakerfi Zúista.

Halda verði því  til haga að íslenska ríkið hafi ekki hlotið neitt tjón af útgreiðslu sóknargjalda til Zúista. Og hvorki hann né aðrir stjórnarmenn hafi haft nokkurn persónulegan hag af þeim ráðstöfunum sem lýst sé í ákæru; engir fjármunir hafi runnið til hans umfram það sem eðlilegt mátti teljast fyrir vinnu í þágu félagsins og engin launung hafi verið um. Því fari fjarri að hann hafi ætlað sér fjármuni félagsins. 

Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að Einar hafi lagt inn beiðni hjá Endurupptökudómi vegna dóms Landsréttar yfir honum fyrir fjársvik þar sem hann var dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi. Beiðnin er lögð fram þar sem meðal dómara í málinu var einn þeirra sem skipaður var á ólögmætan hátt að mati Mannréttindadómstóls Evrópu.