Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur að tvö til þrjú þúsund hafi smitast daglega

26.01.2022 - 21:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur að líklega hafi á milli tvö og þrjú þúsund manns smitast daglega undanfarið af völdum covid. Þessa ályktun dregur Kári af fyrri hluta rannsóknar fyrirtækisins á því hversu útbreidd veiran er í samfélaginu.

Samkvæmt því höfðu um 20 prósent fólks undir fertugu smitast af covid fyrir fjórum vikum. Það var tvöfalt meiri fjöldi en greinst hafði samkvæmt opinberum prófum. Kári gerir ráð fyrir að sama þróun hafi átt sér stað samhliða fjölgun smita. „Það hafa verið að greinast svona þúsund á dag þannig að ég reikna með því að raunverulega hafi smitast einhvers staðar á milli tvö þúsund og þrjú þúsund. Kári segir þó engu hægt að slá föstu um fjölda smita. „Það eina sem við vitum er að það hafa mun fleiri smitast en við höfum greint. Nú finnst mér það að mörgu leyti skipta minna máli en það gerði í fyrra og minna máli heldur en ég hélt það myndi skipta þegar við héldum af stað í þessa rannsókn.“

Kári segir að nú sé full ástæða til að aflétta takmörkunum því omíkron valdi miklu mildari sjúkdómi en fyrri afbrigði. Hjá Íslenskri erfðagreiningu hafi verið brugðist við með því að hætta vikulegri sýnatöku hjá starfsmönnum og fella niður grímuskyldu.