Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hátt í hundrað útköll vegna illviðrisins í gær

26.01.2022 - 06:34
Ofsaveður gekk yfir landið 25. janúar 2022.
 Mynd: Þröstur Guðlaugsson
Björgunarsveitiir sinntu hátt í eitt hundrað útköllum í vonskuveðrinu sem gekk yfir landið í gær, flestum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að óvenju mikið hafi verið um að þakplötur, klæðingar og þakkantar hafi fokið en einnig var tilkynnt um að lausamunir hafi tekist á loft, gluggar brotnað ásamt því að grill og trampólín fóru af stað.

Alls svaraði 151 sjálfboðaliði útkalli en tuttugu og ein björgunarsveit var kölluð út. Björgunarsveitafólk að huga að bátum í höfnum í nokkrum tilfellum, aðallega á Suðurnesjum. 

Gat kom á skrokk björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein þar sem það lá við flotbryggju í Sandgerðishöfn. Sjór flæddi inn í skipið en suðvestanillviðrið varð til þess að það skall utan í bryggjuna. Eftir bráðabirgðaviðgerð verður skipið fært í slipp til Njarðvíkur.

Nokkur dæmi voru einnig um að tré rifnuðu upp með rótum. Gulum og appelsínugulum viðvörunum á Austurlandi, austfjörðum og Suðurlandi var aflétt í nótt. 

Eftir illviðri gærdagsins er útlit fyrir rólegt veður í dag. Veðurstofan gerir ráð fyrir hægum vindi víðast hvar og köldu, úrkomulitlu veðri, þó má búast við dálítilli snjókomu við suður-og vesturströndina.