Sex ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Einn þeirra var stöðvaður í Hlíðunum í Reykjavík skömmu eftir miðnætti, en sá er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án ökuréttinda. Í þokkabót reyndist ökumaðurinn hafa greinst smitaður af Covid og hefði með réttu átt að vera í einangrun. Farþegi í bílnum var hvorki skráður í einangrun né sóttkví.
Á þriðja tímanum var ökumaður stöðvaður eftir hraðamælingu á Vesturlandsvegi. Sá er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu eða sölu þeirra.
Af öðrum verkefnum næturinnar má nefna að tilkynnt var um þjófnað úr verslun í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði maður stolið búnti af pokum, að verðmæti 680 króna.