Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Ég er eiginlega orðlaus yfir þessari frammistöðu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er eiginlega orðlaus yfir þessari frammistöðu“

26.01.2022 - 16:21
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta var hrærður í leikslok yfir frammistöðu íslenska liðsins eftir tíu marka sigur á Svartfjallalandi, 34-24 í lokaumferð milliriðlakeppni EM í Búdapest. Ísland spilar nú aftur á föstudag, annað hvort um 5. sætið við Norðmenn eða í undanúrslitum við Spán. Til þess að Ísland komist í undanúrslit þurfa Danir að vinna Frakka í kvöld.

„Ég er eiginlega orðlaus yfir þessari frammistöðu hvernig við gerðum þetta frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Ég er gríðarlega stoltur og þakklátur fyrir framlagið hjá leikmönnum. Þeir voru stórskostlegir. Ég á ekki til orð til að lýsa hvað þessir sem eru búnir að vera í einangrun voru ótrúlegir í þessum leik. Það er ekkert grín að vera lokaður inni í sjö daga í litlu hótelherbergi, komast ekki út og geta ekki æft eða neitt. Þannig þeirra frammistaða var stórkostleg og verður lengi í minnum höfð,“ sagði Guðmundur meðal annars eftir leikinn í dag.

„Ég sagði við drengina fyrir leikinn í dag að það er þetta augnablik núna. Það er enginn morgundagur. Það er núna. Við ætluðum bara að gefa allt í þetta sem við áttum og berjast til síðasta blóðdropa og það gerðum við. Núna þurfum við bara aðeins að slaka á og taka stöðuna. Kannski koma fleiri leikmenn inn í hópinn ef við erum heppnir. Það eru nokkrir sem eru stutt frá því að sleppa yfir þennan 30 stiga þröskuld hvað CT gildi varðar. Þetta er náttúrulega alveg með ólíkindum, því þeir eru einkennalausir og brenna fyrir það að koma aftur inn á völlinn. Þetta er gríðarlegt andlegt álag fyrir þá. Það skulu bara allir átta sig á. Það verið að taka af þeim draum að mörgu leyti. Vonandi koma sem flestir inn í næsta leik. Ég á mér þann draum. Kannski gerast kraftaverk og Danir vinna Frakka og þá erum við í undanúrslitum. En annars tökum við þennan leik um 5. sætið bara með krafti,“ sagði Guðmundur Guðmundsson

Allt viðtalið má finna við Guðmund í spilaranum hér fyrir ofan.