Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eðalvagn Nóbelsskáldins í allsherjar yfirhalningu

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Ljóskremuð Jagúar-bifreið Halldórs Laxness er í allsherjar yfirhalningu. Nemendur við Borgarholtsskóla í Reykjavík eru í óða önn að pússa burtu ryð og sparsla í dældir.

Glæsibifreið Nóbelskáldsins hefur á sumrin tekið á móti gestum að Gljúfrasteini. Jagúarinn er árgerð 1968 og þrátt fyrir að vera á besta aldri var kominn tími á yfirhalningu. Því var leitað til Borgarholtsskóla.

„Við tókum slaginn og erum byrjuð. Byrjuðum aðeins í haust og erum að halda áfram. Við erum að sjá um boddíhliðina og málninguna,“ segir Ólafur Gunnar Pétursson, kennari við bifreiðasmíði og bílamálun í Borgarholtsskóla

„Við erum búin að vera að taka ryð í honum og reyna að slétta svolítið úr honum. Það eru svolítið af beyglum í honum. Svo erum við bara að fara að matta hann og mála. Gera hann fínan,“ segir Guðrún Ragna Karlsdóttir nemandi.

Var hann mikið ryðgaður?

„Merkilega lítið. Því mér skilst upp úr '80 hafi hann verið tekinn í gegn. Þannig að þetta er ekki mjög mikil boddívinna en þetta er mjög mikil málningarvinna. Nemendur hafa mjög gaman að svona verkefnum og mæta bara merkilegavel, ekkert vesen. Svo höfum við kennararnir líka mjög gaman að þessu,“ segir Ólafur.

„Það er svo mikið, eins og hérna, af spassli. Það sést herna hvað það er þykkt lag af spassli. Það er svo gaman að sjá hvernig viðgerðir hafa verið. Við erum að læra helling á þessu,“ segir Guðrún.

Í hvernig ástandi var hann að innan þegar hann kom til ykkar?

„Hann var ekki í góðu ástandi. Það þurfti að byrja á að hreinsa alla innréttingu út úr honum, taka öll sæti og allt draslið. Svo var tjörumotta yfir öllu gólfinu sem tók ansi langan tíma að ná að hreinsa upp,“ segir Jóhann Auðunn Haukdal Þorsteinsson nemandi.

„Það er svona viðarinnrétting í þessum bíl sem var aðeins farin að láta á sjá. Við rifum hana úr en hún fer í annarra manna hendur, það eru einhverjir smiðir sem taka það. Þannig að við sem sagt rifum alla klæðningu úr, málum bílinn, ryðbætum það sem þarf að ryðbæta, setjum hann saman og skilum honum fullbúnum,“ segir Ólafur.

Er þetta viðamikið verkefni?

„Já, þetta er ansi stórt verkefni, sérstaklega svona nemendaverkefni. En við erum kennarar hér bæði í bílamálum og bílasmíði með mikla reynslu. Þannig að við grípum inn í ef eitthvað bjátar á,“ segir Ólafur.