Þjóðverjar höfðu frumkvæðið lengst af í leiknum og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16-12. Rússar byrjuðu seinni hálfleikinn hins vegar af krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og minnkuðu muninn í 16-15. Rússar komust svo yfir í fyrsta sinn í leiknum 26-25 þegar skammt var eftir af leiknum.
Þýska liðið var þó sterkari í lokin og Patrick Zieker skoraði sigurmark leiksins þegar 11 sekúndur voru eftir af honum. Sannkallað sirkusmark hjá Zieker. Úrslitin urðu 30-29 fyrir Þýskaland sem endaði í 4. sæti milliriðilsins með 4 stig en Rússar í 5. sætinu með 3 stig. Í kvöld klukkan 19:30 verður síðasti leikur milliriðils II leikinn þegar Svíþjóð og Noregur eigast við. Svíar þurfa sigur til að komast í undanúrslit. Noregi nægir hins vegar jafntefli til að fylgja Spánverjum upp úr riðlinum og í undanúrslitin. Spánn tryggði sitt undanúrslitasæti fyrr í dag með sigri á Póllandi.