Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Riða greindist í sauðfé á Vatnsnesi

25.01.2022 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Matvælastofnun barst nýlega tilkynning frá Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum um að riða hafi greinst við sýnatöku á sauðfé af bænum Sporði á Vatnsnesi við Húnaflóa. Sýni voru einnig tekin af öllu sauðfé sem sent var til slátrunar af bænum, auk bæja í nágrenninu. Ekkert greindist á nágrannabæjum.

Sauðfjárbúskapur var aflagður á Sporði í haust og var bærinn því ekki í forgangi við sýnatökur að sögn Sigríðar Björnsdóttur, héraðsdýralæknis í Norðvesturumdæmi. Bærinn er nærri bæjum þar sem riða hefur áður greinst, og því í aukinni áhættu við að þar greinist riða. Líkur eru á að kjötið af sauðfénu af Sporði sé komið í umferð. Sigríður segir riðu ekki smitast yfir í menn í gegnum kjötafurðir. Þegar mögulegt er að koma í veg fyrir að afurðir af riðuveiku sauðfé fari í umferð er það gert.

Á vef Matvælastofnunar segir að fjöldi sýna sé tekinn úr fé sem sent er til slátrunar á hverju hausti. Þau eru öll rannsökuð með tilliti til riðu. Jákvæð niðurstaða úr einu síku sýni frá í haust barst nýlega. Þegar Matvælastofnun hafði samband við bóndann á Sporði kom í ljós að hann hætti sauðfjárbúskap í haust. Því þarf ekki að skera niður fé á bænum, en faraldsfræðileg rannsókn verður gert. Lagt var til við ráðherra að fyrirskipa hreinsun útihúsa og umhverfis þau.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV