Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ákjósanlegt að omíkron útrými öðrum afbrigðum

Mynd með færslu
 Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson - HÍ/Krisinn Ingvarsson
Ákjósanlegt væri að omíkron-afbrigði kórónuveirunnar myndi útrýma öðrum afbrigðum veirunnar, en erfðafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands telur það mögulegt vegna yfirburðastöðu afbrigðisins. Þó bendir hann einnig tvo aðra möguleika, það er að nokkur veiruafbrigði sveiflist í tíðni eða að til verði ný blendingsafbrigði, til dæmis blanda af omíkron og delta.

Frá upphafi kórónuveiru faraldursins undir lok árs 2019 hefur veiran þróast í fjölda ólíkra afbrigða. Þar má nefna til dæmis alfa, beta, delta og omíkron-afbrigðið, sem nú er allsráðandi. Nýlega spáði framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar því að faraldrinum gæti verið að ljúka í Evríou, eða að hann omíkron-afbrigðið marki líklega „lokaorrustuna við farsóttina“.

Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, fjallar um í nýjum pistli á Vísindavefnum um þrjár líklegar sviðsmyndir hvað varðar framvindu kórónuveiru-afbrigðanna:

  1. Eitt afbrigði veirunnar verði allsráðandi og önnur deyi út.
  2. Tvö eða fleiri afbrigði verði ríkjandi, með tíðni sem sveiflist milli svæða og tímabila.
  3. Tvö eða fleiri afbrigði myndi blendingsafbrigði með endurröðun erfðaefnis.

Líkan eitt og tvö eru taldar líklegri sviðsmyndir en hið þriðja.

„Deltakron eða ómídelta“ ólíklegt - en mögulegt

Kórónuveirur fjölga sér með því að klóna sig, með því sem kallast kynlaus æxlun. Þó er mögulegt að veirurnar endurraði erfðaefni sínu milli afbrigða, stokki upp erfðaþáttum sínum.

„Það væri sérstaklega óheppilegt ef slíkt gerðist, til dæmis milli ómíkron og delta, og að til yrði nýtt afbrigði sem hefði smithæfni þess fyrra en ylli alvarlegum einkennum þess síðara“ segir í pistlinum.

Slíkt er þó inni í myndini að sögn Arnars. Endurröðun af þessu tagi geti orðið þegar hátt hlutfall einstaklinga er smitaður af hvoru afbrigði, eða ef einstaklingur smitist af báðum afbrigðum samtímis.

Ákjósanlegra að omíkron útrými hinum

Eins og staðan er nú, er erfitt að spá því hvernig faraldurinn þróast. En því fleiri sem smitist og því fleiri sem eru óbólusettir á heimsvísu telur Arnar líklegra að seinni tvær sviðsmyndirnar raungerist. Vegna mildra einkenna omíkron-afbrigðisins, væri ákjósanlegri kostur að það myndi útrýma öðrum afbrigðum. Þó sé einnig ástæða til þess að viðhalda einhverjum takmörkunum, til þess að minnka útbreiðslu og minnka líkur á möguleikum 2 og 3.

„Framtíðin er veirunnar því henni verður ekki útrýmt úr þessu, en við getum ennþá haft áhrif á möguleikana sem standa henni til boða“ segir í pistlinum.