Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tveir inniliggjandi á Akureyri með covid

24.01.2022 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Tveir sjúklingar hafa verið lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri með COVID-19. Hvorugur er í gjörgæslu. Fram að því hafði enginn legið á sjúkrahúsinu með sjúkdóminn í rúmar tvær vikur.

Sjúkrahúsið á hættustigi

Vegna innlagnanna tveggja er sjúkrahúsið skilgreint á hættustigi. Ekki er enn þörf á að opna covid-göngudeild sjúkrahússins. Tæplega fimmtíu starfsmenn eru fjarverandi í einangrun eða sóttkví. Áfram eru valkvæðar skurðaðgerðir og endurhæfingarþjónusta skertar. Staðan er metin daglega en gert er ráð fyrir að hægt sé að veita undanþágur ef talið er að töf verði til skaða fyrir sjúklinga. Eru forstöðumenn deilda sjúkrahússins beðnir um að skipuleggja starfsemi sinna eininga í samræmi við þetta þar sem það á við.

Talsvert er um smit á Norðurlandi eystra og hafa þau aukist mikið milli daga. Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru nú skráðir 493 í einangrun og 1068 í sóttkví vegna covid. 95 ný smit greindust þar í gær.