Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

NATÓ eflir varnir í Austur-Evrópu

epa09701507 Spanish frigate Blas de Lezo leaves the port in Ferrol, Spain, 22 January 2022. The frigate is deployed to the Black Sea to join NATO naval forces.  EPA-EFE/kiko delgado
Spænska freigátan Blas de Lezo á leið til Svartahafs. Mynd: EPA-EFE - EFE
Herlið nokkurra Atlantshafsbandalagsríkja er í viðbragðsstöðu vegna ástandsins á landamærum Úkraínu. Nokkur ríki hafa sent herskip og orrustuþotur til Austur-Evrópuríkja til að styrkja varnir þeirra. Rússar saka NATÓ og Bandaríkin um að auka á spennuna í Evrópu með yfirlýsingum sínum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO segir í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér í dag, að bandalagið hyggist grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi aðildarríkjanna, meðal annars með því að styrkja varnir ríkja í Austur-Evrópu. Ávallt verði brugðist við hvers konar öfugþróun í öryggismálum á svæðinu.

Danir tilkynntu í síðustu viku að þeir ætluðu að senda freigátu og nokkrar orrustuþotur til Eystrasaltsríkja til að styrkja landamæraeftirlit þeirra. Hollendingar og Spánverjar áforma að senda flugflota til Búlgaríu og þá eru spænsk herskip í viðbragðsstöðu. Frakkar eru reiðubúnir að senda herlið til Rúmeníu. Bandaríkjaforseti er sagður íhuga að senda skip og flugvélar til Evrópu ásamt nokkur þúsund hermönnum ef Rússar láta af því verða að ráðast inn í Úkraínu.

Bandaríkjamenn hafa beðið fjölskyldur starfsmanna sendiráðsins í Kænugarði að forða sér frá Úkraínu vegna hugsanlegrar innrásar. Bretar ætla að fækka um helming í sendiráði sínu. Í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Kænugarði verður allt með óbreyttum hætti að sinni. Josep Borrell utanríkismálastjóri sagði í dag að ekki væri ástæða til að gera of mikið úr aðstæðum með því að flytja starfsliðið á brott.

Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, sakaði í dag NATÓ og stjórnvöld í Washington um að auka á spennuna í Evrópu með yfirlýsingum um að efla varnir í aðildarríkjunum í Austur-Evrópu. Mikil hætta væri á að þær leiddu til aukinna árása úkraínska stjórnarhersins gegn sveitum aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu.