Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Frakkar með réttu spilin á hendi

epa09707030 Yanis Lenne of France reacts during the Men's European Handball Championship main round match between Montenegro and France in Budapest, Hungary, 24 January 2022.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Frakkar með réttu spilin á hendi

24.01.2022 - 20:55
Frakkar komust í kvöld upp fyrir Ísland í milliriðli I á EM karla í handbolta. Frakkar unnu öruggan sigur á Svarfjallalandi, 36-27 í lokaleik dagsins í milliriðlinum. Frakkar hafa því sín örlög í eigin höndum fyrir lokaumferð riðilsins á miðvikudag. Ísland þarf hins vegar að vinna Svartfellinga og treysta á að Danir vinni Frakka.

Frakkar hafa þar með 6 stig í 2. sæti riðilsins, tveimur stigum meira en Ísland sem er í 3. sæti með 4 stig. Svartfellingar sem verða mótherjar Íslands á miðvikudaginn hafa 2 stig og eiga ekki lengur möguleika á því að komast í undanúrslit mótsins.

Með sigri Frakka á Svartfellingum í kvöld er nú ljóst að Ísland þarf að vinna Svartfellinga á miðvikudag og treysta á að Danir vinni Frakka til að Ísland komist í undanúrslit. Tap Íslands fyrir Króatíu í dag þýðir hins vegar að Frakkar geta með sigri á móti Danmörku, komist í undanúrslit á kostnað Íslands, sama hvernig leikur Íslands og Svartfjallalands færi á miðvikudag.

Að sama skapi er ljóst að ef Ísland tapar fyrir Svartfjallalandi á miðvikudag verða Frakkar komnir í undanúrslit áður en þeirra leikur við Dani hefst. Leikur Íslands og Svartfjallalands á miðvikudag klukkan 14:30 en leikur Danmerkur og Frakklands verður klukkan 19:30 á miðvikudag.