Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fær tækifæri til að bæta fyrir dómgreindarbrestinn

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hafið rannsókn á máli skipstjórans sem sigldi Herjólfi um jólin eftir að réttindi hans runnu út. Þrátt fyrir að stjórn Herjólfs telji málið grafalvarlegt fær skipstjórinn annað tækifæri til að bæta fyrir misgjörðir sínar segir framkvæmdastjóri.

Tryggvi Ólafsson fulltrúi hjá embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum staðfestir að rannsókn sé hafin. Hann segir að í málum sem þessum hefði kæra átt að koma frá Landhelgisgæslunni en það stöðvi ekki  lögregluna að rannsaka málið. Tryggvi segir að lögreglan hafi beðið um skipsbók Herjólfs og fengið upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um lögskráningu sjómanna á skipinu. Hann segir að rannsóknin eigi ekki að taka langan tíma og að málið verði síðan sent ákærusviði embættisins.
Atvinnuréttindi skipstjórans runnu út í desember og Samgöngustofa lét hann vita með tölvupósti að hann þyrfti að endurnýja réttindin. Hann var því án löggildra réttinda þegar hann sigldi Herjólfi 10 síðustu daga desembermánaðar. Hjá Samgöngustofu fengust þær upplýsingar að það sé skipstjórans sjálfs að endurnýja réttindin og fylgjast með því hvort þau séu í gildi. Þar á bæ hafa menn gefið svigrúm vegna faraldursins til að afla allra gagna m.a. læknisvottorða. Sá tími er þó venjulega mjög knappur.
Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. segir málið grafalvarlegt. Stjórn fyrirtækisins hafi gefið sér góðan tíma til að fara yfir það og meðal annars leitað álits lögfræðinga fyrirtækisins ásamt því að ráðfæra sig við félag skipstjórnarmanna. Hann segir að málið hafi strax verið tilkynnt til Vegagerðarinnar, sem er eigandi skipsins, þótt annað hafi komið fram. Hörður segir að skipstjórinn, sem sjálfur tilkynnti brot sín þar til bærum yfirvöldum, hafi starfið hjá fyrirtækinu, á Herjólfi, í 20 ár. Hann hafi fengið áminningu og verið lækkaður í tign. 
„Þrátt fyrir það dómgreindarleysi og þann trúnaðarbrest sem átti sér stað, að hafa gerst sekur um þessa alvarlegu hluti finnst okkur að hann eigi að fá annað tækifæri og bæta fyrir misgjörðir sínar", segir Hörður Orri framkvæmdastjóri Herjólfs ohf.

Arnar Björnsson