Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Erfiðum samstarfsmanni synjað um 140 milljóna bætur

24.01.2022 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið í dag af kröfu fyrrverandi lögreglumanns sem krafðist bóta vegna missis embættis síns. Maðurinn var lögreglumaður hjá embætti Lögreglunnar á Vesturlandi. Þegar fimm ára skipunartíma hans lauk var embættið auglýst laust til umsóknar í stað þess að maðurinn fengi áframhaldandi skipun. Hann taldi að lögreglustjóri hefði með þessu brotið gegn rétti sínum og krafðist nær 141 milljónar króna í bætur auk fjögurra milljóna í miskabætur.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að samstarfsfólk hafði ítrekað kvartað undan manninum. Í málaferlunum var tekist á um rétt yfirvalds til að auglýsa embætti laust til umsóknar við lok skipunartíma, líkt og reyndi á í máli fyrrverandi skólameistara Fjölbrautaskólans á Vesturlandi.

Missir ævistarfs

Maðurinn starfaði sem lögreglumaður um áratuga skeið. Skipun hans sem lögreglumanns var framlengd sjálfkrafa árið 2015. Þá voru þrjú ár liðin frá því endurskipulagning lögregluembætta leiddi til stofnunar embættis lögreglustjórans á Vesturlandi.

Maðurinn taldi að með því að framlengja ekki skipun sína hefði lögreglustjóri brotið gegn sér. Hann taldi lögreglustjórann hafa brotið gegn réttmætisreglu sem ætti að sporna gegn því að menn kæmu sér undan lögboðinni málsmeðferð, meðalhófsreglu og rannsóknarreglu. Maðurinn taldi meðal annars að veita hefði átt sér andmælarétt vegna kvartana samstarfsfólks síns. Maðurinn sagðist hafa verið sviptur ævistarfi sínu þar sem hann ætti ekki afturkvæmt hjá lögreglunni á Vesturlandi. Sömuleiðis hefði lögreglustjórinn með ákvörðuninni vegið að æru sinni og persónu, ákvörðunin hefði verið niðurlægjandi og falið í sér álitshnekki. 

Sífelldar kvartanir

Skömmu áður en skipun mannsins var framlengd 2015 hafði yfirlögregluþjónn embættisins rætt við manninn vegna kvartana samstarfsfólks undan framkomu hans. Þremur og hálfu ári síðar ræddu bæði lögreglustjórinn og yfirlögregluþjónninn vegna áframhaldandi kvartana. Var manninum þá tilkynnt að samstarfsfólk hans hefði sífellt kvartað undan framkomu hans.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var vaktatöflum breytt því tveir lögreglumenn gátu ekki hugsað sér að vinna með manninum og tvær lögreglukonur sögðust hafa íhugað að hætta störfum vegna samstarfsörðugleika við manninn. Að lokum leituðu allir samstarfsmenn mannsins til fagráðs lögreglunnar vegna framkomu mannsins.

Gafst færi á að andmæla eða bæta ráð sitt

Lögreglustjórinn neitaði því að hafa brotið gegn manninum. Hann sagðist hafa verið í fullum rétti að auglýsa umrædda stöðu til umsóknar og maðurinn ætti ekki kröfu á því að gegna embætti sínu lengur en þau fimm ár sem skipunartíminn kvað á um. Lögreglustjórinn sagði að manninum hefði ekki verið sagt upp og hefði getað sótt um embættið þegar það var auglýst laust til umsóknar. Málefnaleg rök voru að baki þeirri ákvörðun að baki því að auglýsa stöðuna, sagði lögreglustjórinn. Hann kvað manninn hafa verið upplýstan um umkvartanir samstarfsfólks síns og haft tækifæri á að andmæla þeim og bæta ráð sitt.

Vísað í fyrri mál um auglýst embætti

Héraðsdómur dæmdi ríkinu í vil og vísaði til dóms Landsréttar vegna annars embættismanns á Vesturlandi sem vildi bætur vegna þess að embætti viðkomandi var auglýst laust til umsóknar. Það var í máli fyrrverandi skólameistara Fjölbrautaskólans á Vesturlandi sem stefndi ríkinu eftir að embættið var auglýst laust til umsóknar. Samkvæmt þeim dómi hefur stjórnvald sem skipar í embætti talsvert svigrúm til að nýta skýra lagaheimild til að auglýsa embætti laust til umsóknar í lok skipunartíma þótt svo sá sem gegnir því vilji sitja áfram í embætti.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV