Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hélt 30 manna afmælisveislu í júní árið 2020 þegar fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins stóð yfir. Á þeim tíma voru allar samkomur innandyra bannaðar. Sjónvarpsstöðin ITV greindi frá þessu í kvöld.
Eiginkona Johnsons aðstoðaði við skipulagningu veislunnar sem var haldin í herbergi ríkisstjórnarinnar í Downingsstræti síðdegis. Tilefnið var 56 ára afmæli hans og allt að 30 manns sóttu samkomuna. Forsætisráðuneytið sagði í svari til ITV að samkoman hafi verið stutt og Johnson hafi aðeins verið þar í tæpar tíu mínútur. Á þessum tíma voru samkomur bannaðar innandyra.
ITV greindi einnig frá því að sama kvöld hefði ættingjar safnast saman í íbúð Johnsons um kvöldið. Forsætisráðuneytið neitaði því, þar hefði aðeins verið lítill hópur úti við. Á þeim tíma máttu sex koma saman utandyra.
Þessar fréttir bætast við fyrri fregnir af veislum í Downingsstræti á tímum strangra samkomutakmarkana, og hefur Johnson verið sakaður um að segja þinginu ósatt. Rannsóknarskýrsla um meint sóttvarnarbrot Johnsons er væntanlega síðar í vikunni.